138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

niðurhal hugverka.

254. mál
[14:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta spurningin í þessari spurningaröð um ólöglegt niðurhal hugverka. Er það kannski við hæfi því að nú er ekki nokkur mynd framleidd nema tvær fylgi og er þess vegna alveg við hæfi að það sé trílógía líka þegar kemur að fyrirspurnum um niðurhal. Mér hafa fundist svörin fram til þessa bæði mjög málefnaleg og upplýsandi og þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir þau.

Nú ætla ég að spyrja um hver sé stefna ráðherra um niðurhal hugverka. Ég vona að það verði unnið skipulega að þessu, þetta er þverpólitískt mál og ég held að það væri afskaplega gott ef unnið væri þannig að þessu máli. Hæstv. ráðherra fór vel yfir það hvað gert hefur verið í öðrum löndum og síðast fór ráðherra yfir stöðuna í Danmörku og upplýsti okkur um að hver einasti Dani hefði með löglegum hætti hlaðið niður 22 lögum, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, sem mér þykir mjög merkilegt. Síðan talaði hæstv. ráðherra um einnota tónlist, þ.e. tónlist sem menn hættu að hlusta á þegar þeir væru orðnir leiðir á henni, og er þetta fyrir okkur sem erum íhaldsmenn á þessu sviði auðvitað mikil frétt. Ég hugsa til þess að ég er enn þá með geisladiska Queen og Þursaflokksins í bílnum og er í mestu vandræðum þegar ég er heima hjá mér vegna þess að allir slíkir hlutir sem heita geisladiskar eru farnir og þar er einmitt farið á þessa vefsíðu til að ná sér í tónlist, en það er eitthvað í það að sá sem hér stendur læri á það. (Gripið fram í: … vínylplötur.) Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er enn þá með vínylplötur og við í þingflokki sjálfstæðismanna vonumst til þess að hann fari yfir í geisladiskana hvað úr hverju, það tengist þessu máli ekki beint en hins vegar rétt að það komi hér fram.

Ég held að það væri afskaplega æskilegt ef það yrði tekið saman, eins og hæstv. ráðherra augljóslega hefur verið að vinna að og kom fram í svörum ráðherra, hvað gert hefur verið í öðrum löndum. Það er augljóst að sum lönd eru komin lengra en önnur hvað þetta varðar og markmiðið er það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, og ég er a.m.k. sammála því, þegar hún vitnaði í greinarhöfund í blaðinu The Economist að neytendur taki frekar löglega kostinn þegar kemur að niðurhali hugverka. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér, það er algjörlega ljóst, og í þessu tilfelli eins og í flestum öðrum málum þurfum við að vinna skipulega að því.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hver er stefna ráðherra varðandi niðurhal hugverka? Við munum svo spjalla um það í framhaldinu.