138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

niðurhal hugverka.

254. mál
[14:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna aftur umræðu um þetta því að við erum e.t.v. skammt á veg komin hér á landi með hinar pólitísku spurningar í þessu. Það liggur fyrir að víða í nágrannalöndum okkar eru sterkar pólitískar hreyfingar sem hafa snúist um það í raun og veru að tónlist og menning eigi að vera öllum aðgengileg án endurgjalds og þessi hreyfing tengist auðvitað líka hreyfingu um opinn og frjálsan hugbúnað. Á móti hafa komið annars vegar útgefendur og hins vegar líka listamenn sem tala um sitt lifibrauð og ég held að það liggi fyrir að markmið okkar í þessum efnum hlýtur að vera að ná einhverjum sáttum milli þessara sjónarmiða.

Stefna mennta- og menningarmálaráðherra á hverjum tíma birtist í þessum efnum í höfundalögunum, þar sem höfundum, flytjendum og útgefendum er tryggður ákveðinn einkaréttur til að gera efni sitt aðgengilegt á netinu. Sá einkaréttur hefur síðan verið staðfestur í þeim dómsmálum sem hafa gengið um hlutdeildarábyrgð rekstraraðila skráarskipta fyrir íslenskum dómstólum. Ég get nefnt svonefnd DC++ mál og Istorrent-mál sem var dómur sem féll 4. febrúar 2009 í Héraðsdómi Reykjaness, auk nýfallins dóms Hæstaréttar um svipuð efni frá 11. febrúar sl.

Hins vegar hefur nú verið birt svonefnt leiðarljós vegna endurskoðunar höfundalaga, því að það liggur fyrir að við ætlum að fara að endurskoða þau. Það leiðarljós er aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins. Þar segir m.a.:

„Efla þarf virðingu fyrir höfundarrétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið. Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnargildi. Stuðla ber að því að notendur taki löglegra kosti fram yfir ólöglega eintakagerð. Höfundalög ættu að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.“ — Og „að leiðbeiningar og fræðsla um höfundarrétt sé mikilvæg fyrir rétthafa sem og notendur.“

Það held ég að sé verkefnið fram undan, sem kannski verður erfitt að ná lendingu í, að ná leið sem sættir þessa aðila.

Ég hef kynnt í ríkisstjórn drög að frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum sem er í forkynningu núna hjá hagsmunaaðilum og á netinu. Þar eru lagðar til nokkrar breytingar, m.a. að tekin verði upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins um fullnustu hugverkaréttinda sem varða afhendingu eða eyðileggingu eintaka, tækja og muna er tengjast broti, sérstaka bótareglu vegna höfundarréttarbrota, upplýsingarétt brotaþola vegna meðferðar máls og rétt brotaþola til opinberrar birtingar dómsniðurstöðu.

Lagt er til að mælt verði fyrir um málsaðild samtaka skv. 23. gr. og 23. a höfundalaga vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa. Skortur á slíku ákvæði í höfundalögum hefur torveldað rétthafasamtökum að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna höfundarréttarbrota því að þau eru ekki aðilar máls.

Enn fremur að innleidd verði sérstaklega í höfundalög 3. mgr. 8. gr. í tilskipun 2001/29/EB um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem þátt eiga í höfundarréttarbrotum á netinu en reynslan hefur sýnt að úrræði V. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu gagnist ekki nægilega, ein og sér, til að sporna gegn höfundarréttarbrotum á netinu.

Þetta eru tæknileg efni sem þarna er kveðið á um. Ég hef hins vegar ákveðið að hafa frumkvæði að því að leitað verði eftir afstöðu netþjónustuaðila til samstarfs við útgefendur og rétthafa til að kanna möguleikana á því og að stuðla að framboði löglegra kosta í stað ólöglegrar skráardreifingar.

Að lokum vil ég nefna af því að hér hafa sumar þjóðir farið þá leið að útiloka netsamband heimila að ég aðhyllist ekki slík úrræði við fyrstu sýn. Ef við horfum á Ísland þar sem byggt hefur verið upp á síðustu árum eitt virkasta netsamfélag í víðri veröld, ríflega 90% heimila hafa aðgang að netinu. Meiri hluti íslenskra skattgreiðenda skilar skattframtali sínu með rafrænum hætti, netaðgangur að bankareikningum er mikill, sem og rafræn samskipti við opinberar stofnanir og stjórnsýslu. Því mætti halda fram að aðgangur að netinu á Íslandi sé orðinn hluti af borgaralegum réttindum landsmanna. Í því ljósi tel ég að allrar varúðar þurfi að gæta við að útiloka eða svipta heimili netaðgangi vegna ætlaðra brota gegn höfundarrétti. Ég vil fremur horfa á leiðir sem miða að þessu aukna framboði löglegra kosta umfram ólöglega, að stjórnvöld beiti sér fyrir því að þar taki höndum saman netþjónustuaðilar, listamennirnir, útgefendurnir og svo notendurnir að sjálfsögðu við að efla bæði vitund um höfundarrétt og virðingu og síðan að fólki verði gefinn kostur á að neyta hinna löglegu kosta.

Ég held að það sé rétt að við útrýmum þessu líklega aldrei en í þessum efnum tel ég rétt að ganga varlega fram og reyna að ná eins mikilli sátt um málið og unnt er.