138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

niðurhal hugverka.

254. mál
[15:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má segja að þessi vinna sé þegar hafin með kortlagningu umhverfisins og umræðum í höfundarréttarráði og víðar. Ég tek áskorun hv. þingmanns vel. Þetta snýst auðvitað um margháttaða hagsmuni. Við höfum líka heyrt að listamenn hafi nýtt sér þessa ókeypis dreifingu á netinu í umtalsverðum mæli og náð í raun og veru að selja með því að dreifa ókeypis á netinu. Það eru því margar aðferðir í þessum efnum. Í Frakklandi, áður en þessi þriggja aðvarana leið var samþykkt í lögum, var mikið rætt um að setja hreinlega gjald á netþjónustuna. Það er sú leið sem Danir hafa farið, þ.e. síminn í raun og veru rukkar gjald eða maður getur valið þessa auglýsingaleið og þar með haft aðgang að tónlist. Ég held að það sé kannski leið sem við ættum að skoða vel í okkar samfélagi, þar sem við erum mjög tæknivædd, nettengd og farsímavædd og nýtum þetta mikið en mundum þar hafa löglegan kost sem við getum annars vegar greitt fyrir eða kostnaður er í formi auglýsinga. Án þess að búið sé að rannsaka það út í hörgul eða ræða það við alla aðila held ég til að mynda að það geti verið leið sem býður upp á löglegan kost á tiltölulega einfaldan hátt.

Svo ætla ég bara að segja að lokum að í mínum bíl eru líka geisladiskar með Clash.