138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

lágmarksbirgðir dýralyfja.

183. mál
[15:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Eins og vikið var að spannst þessi umræða út af sýkingu sem kom upp í tilgreindum minkabúum í Skagafirði. Þetta var bráðsmitandi lungnapest sem getur verið mjög afdrifarík ef hún nær að komast á það stig sem hv. þingmaður nefndi og olli þarna verulegu tjóni.

Það er eðlilegt að spurt sé hver viðbrögðin séu við slíkum bráðsmitandi pestum sem koma upp. Í tilefni af spurningum hv. þingmanns var leitað annars vegar til yfirdýralæknis hjá Matvælastofnun sem fer með þessi mál og hins vegar til Lyfjastofnunar. Samkvæmt bréfi Lyfjastofnunar er að finna málsgrein í 33. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Skylt er lyfjaheildsölu að eiga nægar birgðir, að mati heilbrigðisyfirvalda, af tilteknum nauðsynlegum lyfjum sem veitt hefur verið markaðsleyfi fyrir hér á landi og lyfjaheildsalan annast dreifingu á.“

Bóluefni falla undir skilgreininguna á lyfjum. Eins og kom fram í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar er hægt að bólusetja við þessari veiki en það er síðan ákvörðun einstakra bænda og greinarinnar hvort það sé gert.

Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki gefið út þennan lista yfir tiltekin nauðsynleg lyf sem kveðið er á um í þessum lögum. Þau hafa hins vegar samið við lyfjaframleiðendur, t.d. í tilvikum inflúensufaraldra, um kaup á ákveðnu magni lyfja og þá hefur ríkissjóður staðið undir kostnaði við slík lyfjakaup eins og við þekkjum frá umræðunni um svínaflensubólusetningar á síðastliðnu og þessu ári. Það er síðan sérstakt vandamál að aðeins fáein dýralyf eru með markaðsleyfi hér á landi og ekki er hægt að setja skyldur á fyrirtæki um önnur lyf en þau sem hafa markaðsleyfi. Að mati yfirdýralæknis væri æskilegt að til væru í landinu ákveðnar birgðir af nokkrum tegundum sýklalyfja fyrir dýr til að geta brugðist hratt við ef á þarf að halda vegna óvæntra sjúkdóma í dýrum.

Það ber líka að gera sér grein fyrir því að þó að menn komi sér upp ákveðnum birgðum af lyfjum úreldast þau og það getur þurft að endurnýja þau reglulega til þess að þau haldi virkni sinni. Einhver mun því þurfa að bera þann kostnað sem af því hlýst. Engu að síður hef ég óskað eftir því og rætt það við yfirdýralækni að farið verði yfir þessa lista og menn geri sér þá grein fyrir því hvað gerist ef þessi og hinn sjúkdómurinn kemst á skrið. Við þekkjum að ýmsir aðrir enn þá hættulegri sjúkdómar eins og gin- og klaufaveiki o.fl. lúta sérstakri tilkynningarskyldu. Engu að síður held ég að það væri mikilvægt að til væri viðbragðsáætlun varðandi hina ýmsu dýrasjúkdóma þó að þeir séu ekki eins alvarlegir og gin- og klaufaveikin.

Mér finnst mjög gott að þessi atvik og þessi tilvik sem þarna voru uppi og ollu miklu tjóni verði til þess að þessi mál séu skoðuð og ég tek undir með fyrirspyrjanda um að menn átti sig á því hvernig megi sem best bregðast við. Það er hins vegar alveg hárrétt að Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum brást vel við og sem betur fer eigum við þar mjög duglegt og fært fólk sem gat brugðist við í þessu tilviki. Við þyrftum einnig að huga að því hvaða möguleika við þurfum að halda í þar og verja til að geta bæði rannsakað, fylgst með og brugðist við hinum ýmsu dýrasjúkdómum sem geta komið upp í landinu.