138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

lágmarksbirgðir dýralyfja.

183. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að aðalatriðið sé að við reynum að læra af þessari reynslu. Við vitum núna, að fenginni reynslu, að svona sjúkdómar geta komið upp. Það eru ekki bara þessi dæmi frá Ingveldarstöðum og Syðra-Skörðugili, sem ég var að nefna, það eru fleiri dæmi um þetta. Við þurfum þess vegna að gera okkur grein fyrir þessari hættu sem sannarlega er til staðar.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, þetta er ekki einfalt mál og þess vegna er mikilvægt að menn reyni að setjast niður við þetta, bæði bændur og vísindamenn, til að gera sér grein fyrir því hvað er til ráða. Lyfin úreldast við geymslu eins og hæstv. ráðherra sagði og það er kostnaður samfara þessu. Menn þurfa þá einfaldlega að meta hvort það sé þess kostnaðar virði að greiða þetta birgðahald til að koma í veg fyrir að lenda í stórtjóni eins og menn urðu fyrir á síðastliðnu hausti í Skagafirði.

Við verðum líka að horfa á þetta í því ljósi að nú er það hugmyndin að auka frekar þessa framleiðslu, loðdýraframleiðslu, heldur en hitt. Það eru greinilega mikil tækifæri að myndast. Afurðaverðið hefur hækkað, gengið hefur hjálpað mönnum í þessum útflutningi og möguleikarnir eru einfaldlega miklu meiri núna en áður var talið þó að menn muni örugglega ekki fara fram í neinu gáleysi eða af ævintýraskap í þessum efnum. Hins vegar eru möguleikar þarna þannig að við getum gefið okkur að þessi búrekstur verði umsvifameiri á næstu árum en hann er núna eða hefur verið á undanförnum árum.

Ég tek síðan undir það að við erum svo heppin að eiga hér gífurlega fína og góða vísindamenn, eins og dæmin sönnuðu núna í haust, sem brugðust mjög vel við og fóru í það að framleiða þessi lyf sem virkuðu mjög vel. Það er styrkur okkar í þessum efnum og þess vegna hvet ég til þess að þeir aðilar, vísindamennirnir, bændurnir, ráðuneytið og til þess bær yfirvöld, setjist yfir þessi mál til þess að við lærum af reynslunni, til þess að lágmarka skaðann.