138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

lágmarksbirgðir dýralyfja.

183. mál
[15:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er mjög gagnleg og þörf. Það er mikilvægt að við séum stöðugt með skipulag sem lýtur að ferlum, sem þurfa að vera mjög fljótvirkir varðandi innflutning á lyfjum, og hugsanlega undanþáguaðgerðum fyrir innflutning á lyfjum til að bregðast við, en hugum einnig að okkar eigin möguleikum til að geta bæði stundað forvarnastarf og brugðist við í tilvikum sem þessum. Þá verðum við bara að hugsa til þess hversu mikilvægt það er að hafa stofnun eins og Tilraunastöðina á Keldum og þá öflugu vísindamenn sem þar eru. Það er nokkuð sem við þurfum einmitt að huga að, þeim mannauði og þeirri þekkingu sem við höfum til að geta brugðist við.

Ég tek undir orð hv. þingmanns um loðdýraræktina sem á sér mikla möguleika núna. Hún er mjög arðsöm og hagkvæm við þessar aðstæður og ekki sjáanlegt annað en að hún verði það áfram. Þess vegna eru bundnar miklar vonir við að efla hana og auka. Það hlýtur að vera hluti af því að efla og styrkja grunn þessarar atvinnugreinar að byggja upp viðvörunarkerfi varðandi sjúkdóma og hvernig við getum brugðist sem hraðast við ef eitthvað kemur þar upp. Ég mun því fylgja þeim orðum eftir sem hér hafa verið sögð um að hugað sé að því öryggi sem mögulegt er í þessum efnum hérlendis.