138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úttekt á aflareglu.

356. mál
[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að með þessu er verið að lýsa því yfir að þessu skuli fylgt þann tíma sem tilgreindur er. Þar með er ekki sagt að gengið sé út frá status quo í öllum þeim forsendum sem þarna liggja að baki, við erum stöðugt að afla fleiri og fleiri forsendna fyrir ákvarðanatökum okkar. Samt er mjög mikilvægt að við getum staðfest gagnvart umheiminum, ég tala nú ekki um varðandi þorskinn sem er ein mikilvægasta fisktegund okkar hér við land að umgengni við hann og nýting sé með sjálfbærum hætti, og alþjóðasamfélagið gefi stimpil sem þennan.

Við ráðum ekki öllu um markaðsviðbrögð og hvernig umræðan í kringum fisk á erlendum mörkuðum er og við verðum að átta okkur á að þarna getum við ekki leikið einleik. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hvert skref sem við tökum sé komið fram af fullri ábyrgð gagnvart þessum þáttum þannig að alþjóðasamfélagið virði það. Og einmitt enn þá frekar leggur þetta miklar skyldur á okkur að fylgjast líka mjög náið með bæði forsendum og þeim breytingum sem verið er að grundvalla viðkomandi áætlun á og þar liggur kannski það mikilvægasta. Við vitum að vistfræðilegt ástand í sjónum í kringum landið breytist mjög ört þannig að leggja ber áherslu á að sjálfbær nýtingarstefna felur m.a. í sér að beita vistfræðilegri nálgun við skipulag veiðinýtingar þar sem tekið er tillit til á grundvelli stöðugt nýrri þekkingar stofnanna, fjölbreytileika, nýjum mælingum, samspili ólíkra tegunda í vistkerfinu í kringum landið og þeim miklu breytingum sem þar eru að eiga sér stað. Ég tel (Forseti hringir.) að þarna sé einmitt verið að vinna á mjög ábyrgan hátt, frú forseti.