138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

nýliðun í landbúnaði.

363. mál
[15:44]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa stórmerkilegu og þörfu fyrirspurn. Hversu þörf og nauðsynleg fyrirspurnin er má sjá af því að svar hæstv. ráðherra hér var í stuttu máli á þá leið að til að gera mögulega nýliðun í landbúnaði væri varið sem svarar verði lítillar íbúðar í Reykjavík. Síðan barst talið að einhverju orðagjálfri um merkingar á landbúnaðarvörum sem koma þessu máli ekkert við. Hið raunhæfa svar er að sá sem vill verða bóndi getur fundið sér guðfræðing og gifst honum og sest að á einhverju af höfuðbólum landsins, sem er prestsetur, og stundað þar sinn búskap. Hann getur líka reynt að finna sér maka sem stendur til að erfa bújörð. Aðrar leiðir eru ekki raunhæfar. Þessu þarf að breyta og ég skora á landbúnaðarráðherra að láta (Forseti hringir.) þetta mál til sín taka í alvöru. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)