138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ríkisfjármál.

[10:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sparnaður í rekstri ríkisins og aðgerðir til að draga úr útgjöldum og kostnaði í fjárlögum ársins 2010 eru upp á 43 milljarða kr. Það er mikill misskilningur að aðgerðirnar hafi eingöngu byggst á skattahækkunum. Hv. þingmenn verða að hafa í huga að á móti þessum sparnaði og niðurskurði sem sannanlega var farið í koma óumflýjanleg útgjöld sem ríkið verður að taka á, svo sem eins og vegna aukins atvinnuleysis og kostnaðar sem af þessu ástandi hlýst. Þegar það er haft í huga og skoðað með réttum hætti er veruleikinn sá að aðgerðir sem beinlínis draga úr kostnaði ríkisins á þessu ári eru af stærðargráðunni 43–45 milljarðar kr.

Það er hins vegar vissulega rétt að það er brekka eftir. Hallinn á ríkissjóði er áætlaður tæpir 100 milljarðar kr. á þessu ári. Þar af er halli á frumjöfnuði um 40 milljarðar kr. Efnahagsáætlunin gengur út á að þessi frumjöfnuður náist á næsta ári og að heildarjöfnuður náist árið 2013. Þetta þýðir augljóslega að aðgerðir til að draga úr halla ríkisins á næsta ári verða að vera vel yfir þessum halla á frumjöfnuði sem er í ár. Við getum í grófum dráttum sett upp þá hugmynd að þessir 100 milljarðar kr. sem taka þarf niður í rekstrarhalla ríkisins á þremur árum skiptist í 50 milljarða, 30 milljarða og 20 milljarða, svona til að gefa einhverja stærðargráðu af því sem fram undan er — að því tilskildu að forsendur haldist.

Hvernig eru horfur í byrjun árs? Velta og þróun á síðustu mánuðum ársins 2009 var jákvæðari en við áttum von á, en það hefur hægt á hlutunum aftur núna á fyrstu vikum ársins og velta er minni sem bendir til þess að árið fari a.m.k. hægar af stað en við mátti búast. Hvað það veit á til lengri framtíðar litið er erfitt að segja en með hverjum mánuði sem líður skýrist það náttúrlega. (Forseti hringir.) Ef eitthvað er eru umsvifin í hagkerfinu ívið minni en ætla hefði mátt fyrstu vikur ársins borið saman við síðustu mánuði síðasta árs.