138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

atvinnuuppbygging.

[11:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir það verklag að gefa okkur þingmönnum tækifæri til að spyrja ráðherra þrátt fyrir að við höfum ekki fyllt út kvótann sem fyrir fram er gefinn í óundirbúnum fyrirspurnum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra aðeins í framhaldi af ummælum hæstv. umhverfisráðherra áðan þar sem aðspurð um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sagði hæstv. umhverfisráðherra að sú atvinnustefna sem umhverfisráðherra færi eftir félli ágætlega að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, gott og vel, og að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar byggðist á sjálfbærni Íslands. Það er líka ágætt að við höfum með okkur einhver slík markmið.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún geti alfarið tekið undir þessi ummæli og hvort það fari saman við það sem sá ágæti ráðherra leggur áherslu á í sínu ráðuneyti. Þá rifja ég sérstaklega upp að fyrir nokkrum mánuðum — og nú kemur það mér í koll að þessi óundirbúna fyrirspurn er líka óundirbúin af minni hálfu — tilkynnti hæstv. ríkisstjórn að hér ætti að skapa — ég man ekki töluna, hvort það voru 1.000, 1.800 eða jafnvel 3.000 — störf tengd orkufrekri uppbyggingu. Því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún hafi þá ekki áhyggjur af því, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson vakti athygli á áðan, að svo virðist sem öll þessi atvinnuuppbygging strandi í umhverfisráðuneytinu. Núna eru þessi skipulög sem hv. þingmaður nefndi áðan, sex aðalskipulög sex sveitarfélaga, búin að bíða í 3–6 mánuði og því spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. iðnaðarráðherra að þessu.

Vegna ummæla hæstv. iðnaðarráðherra um daginn varðandi mögulega aðkomu Landsvirkjunar að orkuöflun fyrir Helguvík bið ég hæstv. ráðherra aðeins um að fara vel yfir þær hugmyndir sínar sem ég, nota bene, tek vel í.