138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:08]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Nú búum við Íslendingar í fyrsta sinn í marga áratugi við langtímaatvinnuleysi fjölda fólks. Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun um þróun atvinnuleysis mældist atvinnuleysi í janúar sl. 9% en atvinnuleysi er jafnan í hámarki seinni hluta vetrar og því má búast við frekari aukningu á næstu mánuðum. Mest er atvinnuleysið nú á Suðurnesjum, 14,5%, en minnst á Vestfjörðum, 3,4%. Atvinnuleysið er 9,9% meðal karla og 7,9% meðal kvenna.

Þessar tölur segja þó ekki nema hálfa söguna því að margir hafa leitað í nám og eru á framfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Auk þess eru dæmi um fólk sem fellur á milli kerfa og fær ekki framfærslu frá neinum. Dæmi um það er atvinnulaus manneskja í MBA-námi í Háskóla Íslands en það er hugsað sem nám með vinnu. Hún fær ekki atvinnuleysisbætur því að hún er í námi en getur ekki tekið nægilega margar einingar til að eiga rétt á námslánum. Fólk í þessari stöðu, og það eru fjölmargir, hefur því ekki neitt á milli handanna þar til námi lýkur en nauðsynlegt er að fundnar séu eðlilegar og sanngjarnar lausnir á vanda þessa fólks, t.d. með samvinnu Vinnumálastofnunar og LÍN. Þá eru ótaldir allir þeir sem flutt hafa úr landi en samkvæmt tölum frá Hagstofunni fluttu 4.835 fleiri frá landinu en til þess á síðasta ári. Aldrei hafa fleiri flutt burt á einu ári síðan mælingar hófust. Þetta fólk væri flestallt á atvinnuleysisskrá ef það hefði ekki flutt burt. Þegar ríkisstjórnin stærir sig af því að atvinnuleysi sé þó ekki meira en 9% og staðan alls ekki eins slæm og verstu spár gerðu ráð fyrir er vert að hafa í huga að ekki er allt talið með.

Mig langar að opna hér umræðu um stöðu atvinnuleitenda, m.a. til að vekja athygli á ástandinu hjá mörgum einstaklingum og fjölskyldum þeirra og sérstaklega stöðu þeirra sem hafa verið lengi án vinnu. Þá vil ég hvetja stjórnvöld til úrbóta því að ýmislegt er brýnt að laga strax og má gera án mikils kostnaðar en það getur skipt sköpum fyrir fólk í þessari stöðu að fá úrlausn sinna mála.

Atvinna margra Íslendinga er samofin sjálfsmynd þeirra og við þekkjum að þegar fólk hittist fer það fljótlega að spjalla um starfsvettvang en ekki hvernig börnunum líði eða önnur áhugamál. Því tekur atvinnumissir og þá sérstaklega langvarandi atvinnuleysi skiljanlega mikið á fólk. Atvinnuástand á Íslandi hefur yfirleitt verið mun betra en víðast hvar í Evrópu og viss skömm hefur fylgt atvinnuleysi í hugum margra þótt það viðhorf sé óðum að breytast. Þá var kerfið í heild illa í stakk búið til að taka á móti öllum þeim fjölda sem varð skyndilega atvinnulaus en nú er eitthvað að rofa til í þeim málum og t.d. er unnið að ágætum úrræðum fyrir ungt fólk.

Við atvinnumissi verða umtalsverð umskipti á lífi fólks. Fé er af skornum skammti, sérstaklega eftir að tekjutenging atvinnuleysisbóta er ekki lengur fyrir hendi ef atvinnuleysi varir það lengi. Fólk þarf skyndilega að lifa á tæplega 150.000 kr. á mánuði og hafi hinn atvinnulausi börn á framfæri bætast við 276 kr. á dag með hverju barni. Þess má geta að algengt verð á einni skólamáltíð á höfuðborgarsvæðinu er 320 kr. og því dugar fjárhæðin ekki einu sinni fyrir hádegismat, hvað þá öðrum þörfum barnsins. Fjárhagsáhyggjur bætast því við annað álag og fólk nær hreinlega ekki endum saman.

Ég hef töluvert kynnt mér þessi mál að undanförnu og rætt við fólk og mig langar að taka eina sögu úr raunveruleikanum, sögu af manni sem er búinn að vera atvinnulaus í rúmt ár eftir að hafa aldrei þurft að búa við það áður og verið á vinnumarkaði í 25 ár. Hann skrapp til útlanda og þegar hann kom til baka fékk hann ekki bætur vegna þess að það kom í ljós að Vinnumálastofnun hafði rakið út fyrir landhelgina IP-töluna sem hann notaði til að stimpla sig inn.

Svokölluð virk atvinnuleit sem er forsenda bótagreiðslna fer í flestum tilfellum fram í gegnum netið rétt eins og innstimplun hjá Vinnumálastofnun, eða staðfesting á atvinnuleysi eins og það heitir, og þessi maður gat sýnt fram á að hann hafði einmitt verið í virkri atvinnuleit þá daga sem hann dvaldi utan landsteinanna. Það var hins vegar ekki tekið gott og gilt og hann var sviptur bótum í þá daga sem hann dvaldi erlendis. Afskiptasemi af þessu tagi finnst mér brot á almennum mannréttindum fólks og ég efast um lögmæti þess að fylgjast með ferðum fólks með þessum hætti. Auk þess er mjög auðvelt að svindla á kerfinu ætli fólk sér að gera það. Hérna er hins vegar gengið að því sem vísu að atvinnulaust fólk sé upp til hópa svindlarar og glæpamenn, sönnunarbyrðinni er snúið við og jafnvel skotheld sönnunargögn duga ekki til eins og í þessu tilfelli. — Ég held áfram í síðari ræðu. (Forseti hringir.)