138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið mælist atvinnuleysi rúm 8% um þessar mundir en er spáð að vaxi í um 10% á árinu. Núna eru því um 15.000 manns atvinnulausar og að auki má telja þá með sem hafa flutt úr landi. Búferlaflutningar hafa aldrei verið meiri, eins og fram hefur komið, en á síðasta ári eða mánuðum, tæp 5.000 manns. Þannig er atvinnuleysið meira en opinberar tölur sýna. Atvinnuleysið er misjafnt eftir landsvæðum og aldurshópum. Mest er það á Suðurnesjum og í yngsta aldurshópnum. Allt eru þetta þekktar stærðir og hafa verið í langan tíma.

Við höfum talað mikið um staðreyndir og tölur, talað um að forðast reynslu Finna sem studdu sitt velferðar- og stuðningskerfi of lítið og gripu of seint inn í ferli langtímaatvinnuleysis með afleiðingum sem vel eru þekktar, stórkostlegum félagslegum vandamálum, fíkniefnavanda og vonleysi. Við höfum líka talað um að læra af reynslu Færeyinga sem misstu um 1/3 hluta fólks á aldrinum 25–40 ára úr landi, hóp sem ekki hefur snúið aftur þótt kreppunni hafi létt. Stjórnvöld hafa reynt að gera ýmislegt og ekki skal gert of lítið úr því hér. Má til að mynda nefna starfsmenntun atvinnulífsins og náms- og starfsráðgjafa, fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar hringinn í kringum landið.

En betur má ef duga skal. Atvinnuleysi er ekki bara tölur. Á bak við tölurnar er fólk og fjölskyldur. Yfirvöldum er mikilvægast að gefa fólki von, von um atvinnu, von um að á meðan á atvinnuleysinu standi séu fjölbreytt úrræði til staðar. Það gengur til að mynda ekki að segja fólki að fara í nám ef námsmöguleikarnir eru skertir eins og tilfellið er með kvöldskóla framhaldsskólanna. Þar er niðurskurðurinn 50% en ekki 5–7% eins og sagt er.

Það gengur heldur ekki að stjórnvöld hafi ekki skýra atvinnustefnu. Það gengur ekki að hæstv. iðnaðarráðherra og forsvarsmenn ríkisstjórnar tali og tali um þúsundir starfa, og að á sama tíma stöðvi hæstv. umhverfisráðherra öll skipulög sem snerta atvinnuuppbyggingu. Hver er atvinnustefnan, hvernig á fólk að hafa von um að úr rætist? Á það má benda að allt fram á þennan dag tala stjórnarliðar fyrir núverandi lögum um Icesave, en vextirnir, 100 millj. kr. á dag, (Forseti hringir.) mundu duga sem laun fyrir 15.000 manns, þ.e. alla á atvinnuleysisskrá. Nær væri að nýta þá fjármuni til að fjölga atvinnutækifærum en að borga ósanngjarna vexti.