138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Eitt það versta sem hver einstaklingur verður fyrir er að missa atvinnuna og hvað þá að vera án atvinnu í meira en eitt ár líkt og 4.000 Íslendingar búa við í dag. Maður fer að velta fyrir sér hvernig menn skilgreini orðin velferð og velferðarstjórn þegar slíkt ástand er hér á landi. Það eiga að vera sjálfsögð mannréttindi á Íslandi, sem er eitt það auðugasta að auðlindum um gjörvalla veröld, að allir hafi atvinnu. Þannig hefur það verið, nær allir Íslendingar hafa haft atvinnu hér á landi á undangengnum árum. Við erum að upplifa núna atvinnuleysi í mælanlegum mæli í fyrsta sinn í nokkuð mörg ár.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeim úrræðum og því starfi sem Vinnumálastofnun reynir að vinna. Álagið hefur verið gríðarlega mikið á þá stofnun og það starfsfólk sem reynir að sinna þessum sístækkandi hópi. Því hlýtur verkefni okkar að vera að styðja við þessa stofnun og starfsemi hennar en verkefni okkar ætti kannski ekki síst að vera það að fjölga störfum í samfélaginu. Það var ákveðið áfall að funda í gær með forsvarsmönnum atvinnulífsins. Þeir fóru yfir stöðu atvinnumála í samfélaginu og hafa komið fram með áætlanir um það hvernig við getum fjölgað atvinnutækifærum, ekki bara í stóriðju, ekki bara í ferðaþjónustu, heldur í öllum mögulegum geirum í samfélaginu, til þess að færri Íslendingar verði án atvinnu. Það er gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið að horfa upp á það ástand sem blasir við okkur nú og því hljótum við að kalla eftir því að þessi ríkisstjórn fari að gera eitthvað markvert í atvinnumálum þjóðarinnar, fjölga störfum, takast í hendur við aðila vinnumarkaðarins sem skrifuðu undir stöðugleikasáttmála við ríkisstjórnina á síðasta ári, sáttmála sem sumir kalla í dag kyrrstöðusáttmála vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við að sem hún lofaði aðilum vinnumarkaðarins. (Forseti hringir.) Því miður hefur ríkisstjórnin ekki staðið sig nægilega vel í því (Forseti hringir.) og alls ekki við það að fjölga atvinnutækifærum á Íslandi í dag.