138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég þakka góða umræðu í dag. Ég get tekið undir margt sem fram hefur komið. Mig langar í lokin að vekja sérstaka athygli á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga, einyrkja, en eftir hrunið var reglum breytt á þann veg að fólk í þessari stöðu gæti þegið atvinnuleysisbætur að hluta. Þetta úrræði kom sér afskaplega vel fyrir mjög marga en í þessari stöðu eru einmitt margir sem hafa unnið við ýmsar jarðvegsframkvæmdir eða byggingaframkvæmdir sem hafa stöðvast og auglýsingagerð, hönnun og sköpun. Þær greinar hafa orðið mjög illa úti í kreppunni.

Nú hefur lögum verið breytt með þeim reglum að réttur einyrkja til hlutabóta er aðeins þrír mánuðir. Til að halda bótum er fólki gert að stöðva rekstur sinn og tilkynna það ríkisskattstjóra. Með öðrum orðum er verið að hvetja fólk til að leggja árar í bát og gerast bótaþegar eingöngu. Ég veit að það krefst tíma og það er gífurlegt álag fyrir einyrkja að koma sér upp rekstri, og þá eftir áfall að koma sér aftur upp nægilega stórum kúnnahópi til að hægt sé að lifa sómasamlegu lífi á svona harki. Þess vegna er mikil synd að kippa fótunum með þessum hætti undan fólki sem mætti alveg kalla sprotafyrirtæki eða nýsköpun. Það er einmitt það sem þetta fólk hefur verið að gera margt hvert.

Það er þrennt sem mér finnst kannski standa upp úr í þessari umræðu. Það þarf að passa að kerfið haldi utan um alla, að fólk falli ekki á milli kerfa og að allir fái einhverja úrlausn. Það þarf að hvetja fólk til virkni og hjálpa því að finna hvað það langar að gera og hvar hæfileikar þess liggja. Núverandi kerfi gerir bara ráð fyrir því að fólki beri skylda til að taka hverri þeirri vinnu sem býðst hvar á landinu sem er, annars má búast við því að bótagreiðslur falli niður. Svo verðum við að tryggja að komið sé fram (Forseti hringir.) við fólk af sanngirni og virðingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Fólk er ekki í þessari aðstöðu vegna þess að það vilji það, heldur af illri nauðsyn. (Forseti hringir.) Kerfið á að vera fyrir fólkið en ekki öfugt.