138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[11:56]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að fagna þessari þingsályktunartillögu, ekki síst vegna þess að það er að koma í ljós að einyrkjar og smáfyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum með að fá lánastofnanir til að fara með fyrirtæki þeirra í sértæka skuldaaðlögun. Lánastofnanir, sumar hverjar, neita þessum smáatvinnurekendum um þetta úrræði, m.a. vegna þess að þær vilja frekar selja auðseljanlegar eignir út úr fyrirtækjunum og jafnvel láta viðkomandi fyrirtæki fá þá aðrar eignir sem eru á verri stað og þar af leiðandi erfiðara að selja en bankinn situr uppi með.

Auk þess tel ég mjög mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga verði tekin fyrir sem allra fyrst í efnahags- og skattanefnd, sérstaklega núna þegar nefndin er að fjalla um hvernig eigi að fara með skuldaniðurfellingar fyrirtækja. Það er alveg ljóst að nefndir þingsins þurfa að fá ráðleggingar og aðstoð við það hvernig best sé að leysa úr öllum þeim sérstöku vandamálum sem koma upp þegar verið er að laga skuldir fyrirtækja að eignastöðu og greiðsluflæði.

Með öðrum orðum fagna ég þessari tillögu og held að sú staða sé komin upp núna varðandi sérstaka skuldaaðlögun að öllum sé orðið ljóst að það þarf einhvers konar lögfræðiaðstoð við fyrirtæki sem ekki hafa bolmagn til að ráða sér lögfræðinga. Eins og staðan (Forseti hringir.) er í dag er reyndar (Forseti hringir.) mjög erfitt að finna lögfræðinga sem hafa tíma til að taka að sér smámál.