138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[11:59]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og tek algjörlega undir þetta. Það er það sem Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur sinnt gagnvart einstaklingunum. Hún hefur veitt ráðgjöf um greiðsluaðlögun. Þegar ég horfi á tillöguna sjálfa held ég að eitt af því sem efnahags- og skattanefnd þyrfti að skoða væri hvort við mundum nota orðin einyrkjar og fyrirtæki í staðinn fyrir nota orðið fyrirtæki. Þá væri algjörlega skýrt að við ættum við þá sem væru í atvinnurekstri.

Önnur stétt sem ég hef líka haft mjög miklar áhyggjur af er bændur. Það eru engin úrræði í augnablikinu fyrir þá og þeir reka fyrirtæki sín á eigin kennitölu. Svo má náttúrlega ekki gleyma litlu fyrirtækjunum sem hafa orðið langharðast úti í þessari kreppu, verktakafyrirtækjunum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um gjaldþrotin hafa mest verktakar og byggingarfyrirtæki lent í erfiðleikum. Við vitum að verktakar keyra mjög oft fyrirtæki sín á eigin kennitölu. Þarna erum við samt að tala um allt aðrar og mun hærri upphæðir en fyrir einstaklinga.

Frú forseti. Ég beini því til hv. þm. Lilju Mósesdóttur, af því að hún situr í efnahags- og skattanefnd, að það komi fram í vinnu nefndarinnar hvernig við gætum hugsað okkur að fjármagna þessa stofu. Það skiptir líka máli að við hugum að því að einhverjir veiti þessa þjónustu þó að það sé takmarkað, skoðum jafnvel módel eins og hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Eins og ég sagði í lokaorðum mínum er þetta jafnmikilvægur hluti af stuðningskerfinu og það að hjálpa fyrirtækjunum að fara af stað. Ef við hjálpum fyrirtækjunum að fara af stað (Forseti hringir.) má segja að við hjálpum þeim jafnvel að verða gjaldþrota af því að ákveðið hlutfall af fyrirtækjum fer í þrot, það sýnir tölfræðin (Forseti hringir.) og reynslan.