138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[12:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og þessi ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki verði á einhvern hátt undir sama hatti vegna þess að lögin sem við samþykktum í október um sérstaka skuldaaðlögun gera það að verkum að bankarnir nota mjög sambærilega aðferðafræði við skuldaniðurfellingar hjá bæði heimilum og fyrirtækjum. Auðvitað þarf síðan að vera til þekking sem nýtist fyrst og fremst fyrirtækjum.

Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra aðeins betur frá hv. flutningsmanni hvernig hún hefur hugsað sér að þessi nýja stofnun eða deild komi inn í stuðningskerfið sem er núna til staðar, hvort tengja eigi m.a. Ráðgjafarstofu um fjármála heimilanna við Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögin í meira mæli en gert hefur verið til að tryggja að sú þjónusta sem boðið er upp á sé jafnöflug úti á landsbyggðinni og hér á höfuðborgarsvæðinu.