138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[12:26]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það fer vel á því að ræða þessi tvö þingmál saman sem fjöldi þingmanna stendur að. Ég er 1. flm. að fyrra málinu, sem lýtur að því að reiða fram í dagsljósið ýmis gögn um innrásina í Írak árið 2003, og 1. flm. hins málsins er hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, en það mál snýr að því að sett verði á laggirnar rannsóknarnefnd sem vinni skipulega úr þeim gögnum sem fram kunni að vera reidd.

Við höfum oft tekið til umfjöllunar á Alþingi aðdraganda þess að Ísland gerðist hluti af eindregnasta stuðningsliði við innrásarþjóðirnar í Írak en margt er á huldu um hvernig þáverandi ríkisstjórn stóð að málum. Því var mjög haldið á loft á þessum tíma að innrásin væri ólögleg samkvæmt alþjóðalögum og það staðfesti síðan þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, í viðtali sem birtist við hann í septembermánuði árið 2004. Í viðtali við breska útvarpið BBC sagði hann að innrásin í Írak hefði verið ólögmæt að alþjóðalögum þar sem einhliða ákvörðun ríkisstjórna Bandaríkjanna og Bretlands hafi ekki staðist stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

Það kom illa við margan manninn á Íslandi þegar upplýst var vestur í Washington að við hefðum verið sett á lista svokallaðra viljugra þjóða í bandalag sem Bandaríkjamenn kölluðu „Coalition of the willing“, bandalag hinna viljugu. Þetta kom fram á fréttamannafundi í Hvíta húsinu sama dag og ráðist var inn í Írak hinn 20. mars árið 2003. Áður hafði þetta reyndar komið fram á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu tveimur dögum áður eða 18. mars. Þar taldi talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, upp þau ríki sem í hlut áttu og sagði að þau hefðu verið spurð hvert um sig og að fengist hafi afgerandi svör. Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Lilju Mósesdóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Þuríði Backman, er að finna íslenska þýðingu á yfirlýsingum þessa manns en ég ætla að lesa hana upp svo að ekki fari á milli mála hvað um er að ræða.

Spurt er, með leyfi forseta:

„Getur þú, á hvaða hátt sem þú getur, lýst hvernig háttað er þátttöku þeirra 30 ríkja sem birt eru á lista sem hluti bandalagsins? Fyrsta spurningin, að sjálfsögðu, yrði: Er meira en handfylli sem leggja til hermenn?“

Boucher svarar, með leyfi forseta, á eftirfarandi hátt:

„Það eru 30 ríki sem hafa samþykkt að verða hluti bandalagsins um skjóta afvopnun Íraks. Ég þyrfti að segja að þetta eru ríki sem við höfum farið til og sagt, „Viljið þið skráningu á listann“ og þau hafa sagt, „Já.“

Ég skal lesa þau upp fyrir ykkur í stafrófsröð svo að við fáum hinn endanlega lista skrásettan.

Þau eru: Afganistan, Albanía, Ástralía, Aserbaídsjan, Kólumbía, Tékkland, Danmörk, El Salvador, Erítrea, Eistland, Eþíópía, Georgía, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Japan, Kórea, Lettland, Litháen, Makedónía, Holland, Níkaragúa, Filippseyjar, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Spánn, Tyrkland, Bretland og Úsbekistan.“

„Hvert ríki“ [heldur Boucher áfram] „leggur sitt af mörkum á þann hátt sem það telur helst viðeigandi. Sum af þessum ríkjum, ég geri ráð fyrir að öll þessi ríki hafi talað opinberlega um hvað þau eru að gera“

Út frá þessu var gengið þennan dag, 18. mars árið 2003, í bandaríska utanríkisráðuneytinu en eins og ég vék að áðan kom þetta einnig fram á fréttamannafundi í Hvíta húsinu, forsetaskrifstofunum bandarísku, tveimur dögum síðar, 20. mars árið 2003, sama dag og ráðist var inn í Írak.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að sjá til þess að birt verði öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem fyrir liggja frá ársbyrjun 2002 til desember 2003 sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta og annarra þjóða í Írak árið 2003.“

Svohljóðandi er þessi tillaga og síðan fylgir henni greinargerð þar sem m.a. kemur fram frásögnin af fréttamannafundinum í utanríkisráðuneytinu sem ég vék að hér.

Opinberlega hefur því verið haldið fram að á ríkisstjórnarfundi þennan sama dag, þ.e. 18. mars, hafi ákvörðun verið tekin um stuðning Íslands við innrásina. Það er augljóslega málum blandið og um það deilt að hvaða marki ríkisstjórnin yfirleitt kom að málinu eða einstakir ráðherrar eða embættismenn. Sama gegnir um aðkomu utanríkismálanefndar og Alþingis sem lögum samkvæmt hefði átt að upplýsa áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Um þessa þætti er margt á huldu þar sem engar opinberar almennar umræður fóru fram í aðdraganda ákvörðunar um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak.

Í Bretlandi og víðar fer nú fram rannsókn á hlut stjórnvalda og embættismanna og hefur komið fram við vitnaleiðslur að margt var öðruvísi en fram kom á yfirborðinu, meiri efasemdir um réttmæti innrásarinnar hafi verið í stjórnkerfinu en upplýst hefur verið um til þessa og blekkingum hafi verið beitt. Það hefur komið fram af hálfu talsmanna breska hersins að innan breska hersins hafi verið miklu meiri efasemdir og andstaða við innrásina en látið hafi verið í veðri vaka.

Eðlilegt er að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna, svo að deilur þurfi ekki að fylgja okkur inn í framtíðina hvað staðreyndir máls áhrærir. Er því með þessari þingsályktunartillögu óskað eftir aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðun um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak árið 2003.

Við höfum flest fylgst með fréttum frá innrásinni og því sem gerðist í kjölfarið, villimannlegri meðferð á föngum í fangelsum í Írak, Abu Graib myndirnar eru hvað svívirðilegastar um ofbeldi þar sem einstaklingar voru beittir pyntingum og illri meðferð svo að ekki sé dýpra tekið í árinni.

Fram kom tillaga í þinginu á árinu 2004, ári eftir innrásina, um að fram færi rannsókn á þessu máli og voru það formenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka sem stóðu að því. Síðan má nefna tillögur sem hér voru fluttar, m.a. af hv. þingmönnum Össuri Skarphéðinssyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni auk mín, árið 2006 þar sem við lögðum til að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og að þingið lýsti því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.

Menn kunna líka að minnast þess að nokkrir einstaklingar tóku sig til og skutu saman í auglýsingu sem birtist í bandaríska stórblaðinu New York Times , held ég að hafi verið, þar sem beðist var afsökunar á hlutdeild Íslands og stuðningi við innrásarstríðið í Írak. Það hefur alltaf truflað mig mikið að á sama tíma og þessu fór fram, og á sama tíma og upplýsingar voru að berast af pyntingum Bandaríkjastjórnar í Guantanamo á Kúbu, í fangelsum þar, gegn hörðum mótmælum mannréttindasamtaka á borð við Amnesty International, voru Íslendingar að biðla til Bandaríkjamanna um að veita þeim áfram „skjól“ og hefur mér alltaf fundist vera í því fólgin mjög óþægileg mótsögn.

Nema hvað, ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég geri ráð fyrir því að hv. 1. flutningsmaður þingsályktunartillögu okkar um rannsóknarnefndina muni gera grein fyrir því hvað við viljum að fram komi í rannsókninni þannig að ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en legg til að málinu verði skotið til utanríkismálanefndar Alþingis og fái þar skjóta afgreiðslu.