138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[12:38]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér eina umdeildustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á síðari árum sem er stuðningur Íslands við innrásina í Írak árið 2003. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á hér áðan ræðum við tvö skyld mál sem eðlilegt er að fjallað sé um í einu lagi hér á þinginu, þ.e. annars vegar málið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er fyrsti flutningsmaður að og síðan það mál sem ég er fyrsti flutningsmaður að og snýr að skipan rannsóknarnefndar um Íraksstríðið. Ég vil fagna miklum stuðningi hér á þinginu við málið um skipan rannsóknarnefndarinnar. 27 þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum eru flutningsmenn að þessu máli og ég held að það skipti afar miklu máli að þverpólitísk samstaða sé um þetta mál því að það er afar brýnt að mínu mati að við gerum þetta upp.

Sú tillaga sem ég er 1. flutningsmaður að gengur út á að skipa sex manna rannsóknarnefnd þingmanna í því skyni, eins og segir í tillögunni, að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands án samráðs við Alþingi. Ástæðan fyrir því að rannsóknarnefndin er höfð sex manna er sú að ég tel eðlilegt að í þessari rannsóknarnefnd sitji einn fulltrúi úr öllum þeim flokkum eða hreyfingum sem sæti eiga á Alþingi og að þar séu engir meirihlutafulltrúar, það sé eingöngu hugsað um að einn sé frá hverjum aðila. Ég er einnig þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé mjög mikilvægt fyrir þingið að marka sér þá stefnu að skipa oftar og í ríkari mæli þingmannanefndir en við höfum gert hingað til.

Síðastliðið haust ákvað forsætisnefnd að láta gera skýrslu um eftirlitshlutverk Alþingis. Sú skýrsla hefur verið kynnt í þinginu þar sem m.a. kemur fram að það sé mjög æskilegt að þingið skipi fleiri og oftar rannsóknarnefndir en gert hefur verið. Það eru vinnubrögð og vinnulag sem tíðkast í öðrum þjóðþingum en við höfum ekki notað hér á Íslandi. Þetta er liður í því að kynna til sögunnar í æ ríkari mæli en verið hefur skipan rannsóknarnefnda á vegum þingsins. Þá held ég að það skipti afar miklu máli að þær séu þannig skipaðar að allir flokkar sem eiga fulltrúa á þingi komi að þeim og það sé ekki einhver meiri hluti eða minni hluti eða stjórn og stjórnarandstaða.

Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að þetta mál á sér aðdraganda og þetta hefur áður verið rætt. Það hafa verið flutt önnur þingmál í gegnum tíðina um að skoðað verði hvernig staðið var að þessari ákvörðun. Þau þingmál hafa því miður ekki náð fram að ganga. Menn hafa gjarnan spurt mig að undanförnu: Til hvers að fara af stað með þetta? Liggur ekki fyrir nú þegar hverjir tóku ákvörðunina? Jú, að sjálfsögðu liggur það fyrir. Þeir tveir menn sem bera ábyrgð á þessari ákvörðun hafa báðir stigið fram á undanförnum vikum og sagt að rannsóknin sé óþörf vegna þess að það liggi fyrir að þeir tóku þessa ákvörðun. En málið snýst ekki um það. Spurningin er miklu fremur: Hvernig stóð á því að þessir aðilar gátu tekið þessa ákvörðun? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er aðdragandinn að ákvarðanatökunni, ekki það að þessir menn tóku hana sjálfir.

Eins og segir á síðu 3 í greinargerð með tillögunni, frú forseti, er það hugmynd okkar sem flytjum þetta mál að verk nefndarinnar sem hér er lagt til að taki málið fyrir sé meðal annars að athuga, með leyfi forseta:

„a. hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,

b. hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,

c. hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,

d. hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,

e. hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,

f. hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,

g. hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,

h. af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.“

Um þetta snýst málið, frú forseti, ekki að þessir tveir menn hafi opinberlega viðurkennt að hafa tekið ákvörðunina og sjá núna ekki nokkra ástæðu til þess að skoða málið frekar. Þetta er að mínu mati liður í því að gera upp fortíðina, að gera upp söguna. Við erum þessa dagana að skoða ýmislegt sem miður hefur farið í okkar samfélagi á undanförnum árum. Við erum með rannsóknarnefnd í gangi varðandi aðdragandann að hruni bankana sem skilar núna af sér fljótlega. Í kjölfarið höfum við sett af stað rannsóknarnefnd þingmanna til þess að fara yfir þá skýrslu og eftir atvikum gefa þinginu álit á því m.a. hvort einhverjir sem nefndir eru í þeirri skýrslu skuli sæta ráðherraábyrgð svo að dæmi sé tekið.

Nú í lokin, frú forseti, af því að ég sé að ég á örlítinn tíma eftir, stenst ég ekki mátið að nefna í þessu samhengi að það vakti auðvitað athygli mína að þegar þetta mál kom fram núna í byrjun febrúar vakti það nokkra athygli og það var fjallað um það í öllum fjölmiðlum landsins, á báðum sjónvarpsstöðvunum, flestum netmiðlum og í öllum blöðum, nema að sjálfsögðu Morgunblaðinu , blaði allra landsmanna. Morgunblaðið beið í heila viku með að segja frá málinu og þá var að sjálfsögðu ekki sagt frá því sem frétt heldur var skrifað álit ritstjóra í Reykjavíkurbréfi um að flutningsmenn þessarar tillögu væru hermikrákur. Það var útlegging blaðs allra landsmanna á þessari tillögu sem 27 þingmenn úr öllum flokkum standa að. Mér finnst það skipta máli í þessu samhengi, frú forseti, vegna þess að við vitum að annar þeirra aðila sem bar ábyrgð á því að þessi ákvörðun var tekin stýrir jú Morgunblaðinu núna og hefur mjög mikið um það að segja hvernig sagan er skrifuð og mótandi áhrif á hvaða skoðanir almenningur í landinu hefur á því sem er að gerast, m.a. hér á þinginu. Ég verð að segja að mér finnst það ábyrgðarhluti af jafnstórum fjölmiðli og Morgunblaðið er, að fjalla um málið með þessum hætti.