138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[12:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér sameiginlega tvær tillögur, annars vegar um að setja fram öll gögn sem komu að þeirri ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar á sínum tíma að styðja við Íraksstríðið og hins vegar að sett verði rannsóknarnefnd í þau mál.

Það skal sagt strax í upphafi að það er alveg ljóst að þetta var umdeilanleg ákvörðun. Ég held að enginn skorist undan því að segja frá því. Að mínu mati var hún eðlileg og það var eðlilegt að við Íslendingar skipuðum okkur í sveit með þeim þjóðum sem við höfum ávallt gert í tengslum við okkar vestrænu samvinnu. Það var eðlilegt að við gerðum það og það gerðu aðrar þjóðir, til að mynda Spánverjar og Danir.

Í þessari yfirlýsingu á sínum tíma fólst að sjálfsögðu ekki að vera beinn þátttakandi í Íraksstríðinu. Íslendingar hafa ekki verið beinir þátttakendur í Íraksstríðinu, heldur var þessi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda á þeim tíma í rauninni þríþætt. Hún heimilaði yfirflug hér, að nýta Keflavíkurflugvöll og síðast en ekki síst fól hún í sér skuldbindingu til að koma að uppbyggingu á íröksku samfélagi eftir stríð. Það gerðum við, við settum 300 millj. kr. og vel það í uppbyggingu á samfélaginu í Írak.

Ég vil draga fram og undirstrika að ég styð eindregið að öll gögn í þessu máli verði sett fram, birt og gerð opinber, öll gögn sem tengjast ákvörðun íslenskra stjórnvalda á þessum tíma. Það er ekkert og það má ekkert vera að fela í þessum efnum. Ég velti hins vegar fyrir mér tímasetningunni, m.a. í tengslum við það að ég hef setið í utanríkismálanefnd síðan eftir síðustu kosningar, og það er rétt að vekja athygli á því að síðan þessi ákvörðun var tekin hafa þrennar þingkosningar verið haldnar í landinu. Þetta mál var rætt meira og minna á öllum þingum fram til 2007, líka rétt fyrir kosningarnar 2007 og síðan var ekki hreyft við því núna árið 2009.

Það liggur fyrir mikil pólitísk umræða. Það er ekki eins og það hafi verið einhver þöggun á umræðu, hvorki á þingi né í samfélaginu, um þetta mál. Ég hef hins vegar þá pólitísku skoðun og sannfæringu að við eigum að skipa okkur í sveit með þeim vestrænu þjóðum sem við höfum gert farsællega fram til þessa að mínu mati.

En upplýsingarnar verða að koma fram. Af hverju segi ég þetta? Ég segi þetta m.a. í ljósi reynslu minnar í utanríkismálanefnd og líka er ég að vísa í gögn og ræður frá m.a. formanni mínum, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem hefur lengi undirstrikað að það þurfi að auka vægi þingsins. Það liggur fyrir að lögmæti ákvarðana þáverandi utanríkisráðherra og forsætisráðherra er ótvírætt.

Það liggur fyrir lögfræðiálit frá Eiríki Tómassyni sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt því, sem að framan greinir, var það í fullu samræmi við íslensk lög og stjórnskipun að forsætisráðherra og utanríkisráðherra tækju umrædda ákvörðun í sameiningu. Ákvörðunin var ekki þess eðlis að samþykki Alþingis þyrfti til að koma, þar sem ekki var um að ræða ákvörðun, sem fól í sér frekari kvaðir á íslensku landi og lofthelgi en leiðir af varnarsamningnum milli Íslands og Bandaríkjanna …“

Það var fullkomlega lögmætt að fara þessa leið. Það er hins vegar umdeilanlegt og þar kemur einmitt að þessum samskiptum ríkisvaldsins, þ.e. framkvæmdarvaldsins, við Alþingi. Ég held að við eigum, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum fengið á umliðnum vikum og mánuðum vegna Icesave, að undirstrika mikilvægi utanríkismálanefndar. Af hverju segi ég þetta núna? Af því að við erum ekki síst að fjalla hér um eina erfiðustu milliríkjadeilu í síðari tíma sögu Íslands, Icesave-deiluna, sem átti vart að kynna fyrir utanríkismálanefnd. Hér spurði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hæstv. fjármálaráðherra 3. júní á síðasta ári hvort einhver samningur væri á leiðinni. Þá var svarað hreint og klárt: Nei, það er enginn samningur á leiðinni. Allt í einu 5. júní birtist síðan samningur, töfrasamningurinn sjálfur, og honum átti að troða ofan í kokið á þingi og þjóð.

Ég spyr: Hefði ekki ríkisstjórninni verið í lófa lagið að nýta t.d. 4. júní og kynna utanríkismálanefnd drög að samningi í fyllsta trúnaði? Af hverju var það ekki gert? Þess vegna segi ég: Við eigum miklu frekar að líta núna til sögunnar með það í huga hvernig við getum eflt starfsemi þingsins og eflt þingið bæði sem eftirlitsaðila en ekki síður, og fyrst og fremst, sem löggjafarsamkomu. Þess vegna styð ég það að öll gögn verði dregin fram í þessu máli til þess m.a. að hafa það að markmiði að efla utanríkismálanefnd þingsins og efla þingræðið þannig að það geti betur haft eftirlit með því sem ríkisstjórnin er að gera.

Ég vil líka draga það fram að í gegnum tíðina, til að mynda þegar innrásinni í Kósóvó var lýst yfir, í mars 1999 minnir mig að það hafi verið, fór sú ákvörðun heldur ekki fyrir utanríkismálanefnd. Við Íslendingar lýstum yfir stuðningi við þá innrás. Má segja að Íraksákvörðunin hafi verið tekin í því ljósi? Má segja að það hafi verið gangur mála á þingi að kynna ekki slík mál fyrir utanríkismálanefnd? Ég held og ég segi og ítreka það að lögmæti og gildi ákvörðunarinnar á sínum tíma var rétt, það var rétt að taka þessa ákvörðun. Það sem ég hef lengi velt fyrir mér er af hverju menn gera svona mikið úr þessum lista. Það hefur margoft komið fram hjá hæstv. forsætisráðherrum fyrri tíma, hvort sem það voru Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson eða Geir Hilmar Haarde, að við Íslendingar höfðum ekkert með það að gera að vera settir á þennan lista. Okkar stuðningur fólst í því sem ég sagði áðan, það var þríþættur stuðningur: Afnot af íslenskri lofthelgi, afnot af Keflavíkurflugvelli ef svo bæri undir og fyrst og síðast stuðningur við uppbygginguna í Írak. Þar drógum við ekkert undan. Í þessu fólst stuðningur okkar á sínum tíma. Málið er eðlilega umdeilanlegt, þetta er stórt mál og við verðum að ræða það. En ég segi líka að mér finnst forgangsröðun stjórnarflokkanna núna röng. Það er verið að kalla á ákvarðanir um atvinnumál og uppbyggingu í efnahagsmálum og þá er þetta forgangsröðunin. Það liggur fyrir að við þurfum að fá svör frá ríkisstjórninni um skuldavanda heimilanna og um atvinnuvegina. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að af því að allt gengur svo illa við ríkisstjórnarborðið, að koma sér saman um hvernig eigi að haga atvinnuuppbyggingunni, hvernig eigi að leysa þennan gríðarlega vanda heimilanna, sé gott að koma með svona mál til að reyna að dreifa athyglinni og vinnukröftunum á þingi. Fínt, drögum allt fram, setjum allt fram. Við sjálfstæðismenn viljum að það verði gert. Ef þessi rannsóknarnefnd verður samþykkt hér tökum við að sjálfsögðu þátt í því að setja okkar fólk þar inn, eðlilega. Við viljum fá þessi gögn fram. Það má ekki vera neitt að fela í þessu máli, en ég segi: Þetta mál er miklu frekar komið til núna til að dreifa athyglinni frá erfiðum málum sem ríkisstjórnin er að reyna að höndla með en gengur ekkert að koma áfram.

Ég undirstrika að við styðjum það að gögnin verði dregin fram í dagsljósið og styðjum það sem hefur m.a. komið fram af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar í þessu máli, sjálfsagt að málið verði rætt, ekkert að fela, draga allt fram. En það er einkennilegt að setja þetta fram núna í ljósi þeirra erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir þegar við erum að ræða íslenska hagsmuni sem við þurfum að leysa núna en ekki fara í allt að því einhverjar nornaveiðar úr fortíðinni.

Við sjálfstæðismenn viljum að þetta verði skoðað, eðlilega, ekkert að því, en við skulum þá halda málinu til haga eins og það lá fyrir á sínum tíma. Það hefur allt verið upplýst í þessu. Ég veit ekki hversu margar utandagskrárumræður voru haldnar, hversu mörgum fyrirspurnum hæstv. ráðherrar fyrri tíma hafa svarað í þessu máli. Það hefur enginn dregið dul á að þetta hafi verið erfið ákvörðun. Þetta var erfið ákvörðun en hún var eðlileg og skiljanleg og algjörlega í rökréttu samhengi við utanríkisstefnu Íslands síðustu 60 ár. Um það hefur verið pólitískur ágreiningur. Hér eru þingmenn enn þá sem vilja segja okkur úr NATO, ég vil það ekki. Þess vegna var eðlilegt að Ísland lýsti yfir stuðningi við þessar vinaþjóðir sínar, Breta og Bandaríkjamenn, þegar menn ákváðu að fara í þessa mjög erfiðu innrás inn í Írak. Þetta er erfitt, þetta er óþægilegt, þetta er erfitt mál, við skiljum það. Við viljum upplýsa allt sem tengist því. En þá skulum við halda málinu til haga eins og það var og eins og það blasti við. (Forseti hringir.) Íslensk stjórnvöld tóku þessa ákvörðun, voru ekkert að fela hana og stóðu við hana á sínum tíma.