138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði mjög skýrt og klárt að ég styð nákvæmlega það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði m.a. hér áðan, að það er sjálfsagt og eðlilegt að allar þær upplýsingar sem við höfum í þessu máli verði dregnar fram í dagsljósið. En þær bara liggja allar fyrir. Það er búið að ræða þetta út í hið óendanlega í þinginu fram til þessa og ef menn vilja fara í þessa vinnu aftur þá bara gera menn það. Þá fá menn allar upplýsingar um hvað hefur verið gert í þessu máli.

Ég sagði að ef þingið kysi að afgreiða rannsóknarnefndina mundum við sjálfstæðismenn setja okkar fulltrúa í þá nefnd. Ég lýsi hins vegar ekki yfir eindregnum stuðningi við þá tillögu af því að ég get ekki annað en sagt það sem ég sagði áðan, mér finnst menn vera að koma — af því að menn töluðu um Davíð Oddsson þá orðaði sá maður það einhvern tíma svo varðandi ákveðið málefni: „smjörklípa“. Mér finnst þetta vera ákveðin smjörklípa á þessum tímum þegar við þurfum að setja kraftinn og fókusinn á allt annað. Ég undirstrika að ég styð að við setjum allar upplýsingar fram, öll gögn sem hægt er að setja fram í þessu máli. En það hefur bara verið gert. Lögfræðiálit hefur verið sett fram og dregið fram sem undirstrikar m.a. lögmæti þeirrar ákvörðunar sem fyrir liggur.

Ég ætla ekki að segja þinginu fyrir verkum. Ef þingið ákveður að samþykkja rannsóknarnefnd í þessu máli tel ég líka að það eigi að rannsaka fleiri samskipti þings og ríkisstjórnar en bara út af Íraksstríðinu. Við fjöllum þessa dagana um Icesave-málið og vonandi næst niðurstaða í því erfiða máli sem hefði haft miklu meiri þýðingu fyrir íslenska hagsmuni til lengri tíma en nokkurn tíma Íraksstríðið. Þess vegna finnst mér ljóst að við eigum að skoða öll samskipti milli þings og ríkisstjórnar sem tengjast því máli líka.