138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ef ég vík fyrst að síðustu spurningu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um það hvað er innlent lán og hvað er erlent lán er það ekki höfuðmálið hér. Það skiptir í raun og veru engu máli, það sem skiptir máli er hvort farið er eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Svo er auðvitað. Ég ætla ekki að reyna að snúa út úr fyrir þingmanninum. Ef einhver lánar í íslenskum krónum í Danmörku er það erlent lán þar þannig að spurningin um þjóðerni er ekki málið, heldur spurningin um það hvort menn hafi brotið þessi lög um vexti og verðtryggingu með því að lána í krónum með ólöglegri verðtryggingu. Það er spurningin, í raun og veru ekki spurningin um hvort lán er innlent eða erlent.

Við stöndum núna frammi fyrir einu af því sem greiða þarf úr vegna falls bankanna og hruns krónunnar sem er sú staða að fjölmörg íslensk heimili og fyrirtæki eru verulega skuldsett, að hluta til í erlendri mynt eða íslenskum krónum með gengistryggingu ef menn taka það sjónarhorn. Auðvitað eru bankarnir allir fallnir og kröfuhafar þeirra hafa tapað stórfé út af m.a. þessum lánum.

Í raun og veru má segja að frágangur þessara lána hafi verið alveg í takt við þann bægslagang sem fylgdi bankakerfinu að öðru leyti. Það var samkeppnisforskot bankanna að flýta sér svo mjög um alla hluti og vera svo djarfir og hanga ekki yfir smáatriðum að menn hafa greinilega ekki vandað sig mjög mikið við skjalagerðina og þess vegna hafa menn með flumbrugangi sínum búið til réttaróvissu algjörlega að óþörfu. Ef það hefði legið fyrir frá upphafi að lánin væru í erlendri mynt væri þetta álitamál ekki uppi sem nú er uppi.

Engu að síður er álitamálið uppi og úr því þarf að greiða. Þetta er réttarágreiningur og það stendur upp á dómstóla að greiða úr honum. Það stendur hins vegar upp á framkvæmdarvaldið og eftir atvikum löggjafarvaldið að bregðast við þessu máli með öðrum hætti. Það hefur að verulegu leyti verið gert nú þegar þótt auðvitað sé aldrei búið að taka endanleg skref í því máli frekar en öðrum. Ýmislegt hefur verið gert, kannski er rétt að nefna fyrst það sem var gert strax haustið 2008 þegar þessi lán voru sett í alls konar frystingar og annað slíkt, síðan þegar menn náðu aðeins að anda á árinu 2009 voru fengin önnur úrræði, sérstaklega fyrir skuldsett heimili, sem miðuðu að því að lækka verulega greiðslubyrði og reyndar í sumum tilfellum lækka einnig verulega höfuðstól. Það er grundvallaratriði um það helsta sem framkvæmdarvaldið hefur beitt sér fyrir vegna þessa máls til þessa.

Nú er staðan orðin sú, og það kann að koma mörgum á óvart, að úrlausn þessa ágreinings um það hvort um sé að ræða lán með ólöglegri gengistryggingu eða lögleg lán í erlendri mynt skiptir líklega ekki höfuðmáli fyrir alla lántakendur. Reyndar kann svo að vera að hún skipti engu máli fyrir mjög marga lántakendur. Þetta þarf vitaskuld að útskýra. Útskýringin á þessu er að ef niðurstaða dómstóla verður sú að þarna hafi verið um að ræða ólöglega verðtryggingu verður að greiða úr þeim málum með einhverjum þeim hætti sem er eðlilegur og byggir á sanngjörnum sjónarmiðum úr lögunum. Það er tiltekið í 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og um vexti er rætt í 4. og 10. gr. þeirra laga, að miða ber við tiltekna vexti sem eru birtir af Seðlabankanum og eru hagstæðustu útlánavextir bankanna á hverjum tíma.

Ef ekkert hefði verið gert síðan haustið 2008 mundi hagur lántaka batna mjög við það að Hæstiréttur úrskurðaði þessi lán öllsömul ólögmæt, en vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til, sem í mörgum tilfellum bæta mjög hag lántakenda, annaðhvort með því að færa niður höfuðstól eða með því að færa niður verulega greiðslur í hverjum mánuði og raun og veru tryggja lántakendur fyrir því að gengisfall krónunnar falli af fullum þunga á lántaka, en hugsanlega gefa lántaka kost á því að njóta þess ef krónan styrkist, kemur út að a.m.k. með langtímalán, eins og fasteignalán eru sem oft eru til 25–40 ára, skiptir ekki höfuðmáli hver niðurstaða dómstóla verður. Reyndar gæti það orðið verra fyrir lántakendur að dómur félli þeim í hag, ef við orðum það þannig, þ.e. að kröfur þeirra yrðu staðfestar.

Hins vegar er rétt að halda því til haga að með skammtímalán eins og bílalán er þetta nokkuð óljósara. Það er eitt af því sem verður ekki hægt að reikna út fyrir heildina, það verður að reikna það út fyrir hvert lán fyrir sig. (Forseti hringir.)