138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál til umræðu því að staða þessara mála hér á landi er grafalvarleg. Meðan skilanefndir gömlu bankanna vinna hörðum höndum á ofurlaunum að því að hámarka arð umbjóðenda sinna, með þeim hætti að verja eignir og krefja skuldara skila, fer ekkert fyrir skilanefnd heimilanna sem á að standa vörð um hagsmuni þeirra. Skilanefnd heimilanna er í þessu tilfelli ríkisstjórn Íslands, og ætti að vera. Skilaboðin frá henni til umbjóðenda sinna, þ.e. heimilanna í landinu, eru þau að bankarnir eigi að bera byrðarnar, úrræði hafi verið tryggð sem geri fólki kleift að komast þokkalega skammlaust í gegnum þetta þrátt fyrir að um 90% þeirra sem hafa fengið úrlausn mála telji hana óviðunandi.

Í ljósi þeirrar umræðu sem m.a. fór fram hér í morgun og einnig í ljósi hæstv. ráðherra og þeirra orða sem féllu frá honum hér virðist hins vegar enginn hafa það lengur á hreinu hver á að gera hvað eða hvenær meðan heimilin bíða eftir úrlausn í einhverri mynd sem gefur tilefni til meiri bjartsýni en ríkir nú um stundir.

Þá fellur þessi dómur sem hér hefur verið gerður að umtalsefni sem skapar einhverja bylgju af bjartsýnisvotti í þeim anda að heimili og einstaklingar sem eru með hátt í 500 milljarða kr. undir í þessum lánum eygi einhverja lausn. Þess vegna fagna ég því frumvarpi sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur boðað. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við það og hvet stjórnarliða til að veita því máli stuðning og vinna að því máli hratt og vel í gegnum þingið.