138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:44]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrirspyrjanda fyrir að óska eftir þessari umræðu, enda brýnt að þingheimur og almenningur ræði þetta mikla hagsmunamál. Enn og aftur erum við minnt á þessar fordæmislausu aðstæður sem við erum í við að taka á eftirköstum þessa hruns sem átti sér stað fyrir einu og hálfu ári.

Það er að sjálfsögðu erfitt að ræða fordæmisgildi þessa máls, enda hefur dómur Hæstaréttar ekki fallið. Við þurfum að gæta að því að lánasamningar almennings og fyrirtækja í erlendri mynt voru mjög fjölbreyttir og tóku m.a.s. breytingum innan sama banka á því tímabili sem erlend lán voru veitt. Því getur farið svo að viðskiptavinir sama banka séu með hvor sinn lánasamninginn þó að viðkomandi hafi kannski ekki upplifað það þannig. Þess vegna verður erfitt að meta hvaða áhrif þessi tiltekni dómur hefur verði hann staðfestur af Hæstarétti.

Til dæmis mun hann væntanlega hafa lítil sem engin áhrif á þá sem fengu greitt út í erlendri mynt. Þannig voru lán flestra fyrirtækja, a.m.k. margra. Það verður einnig erfitt að sjá fyrir sér hversu mikil áhrif þetta hefur á skuldbreytingar einstakra lántakenda. Viðkomandi lántakandi fékk fjármuni afhenta og þarf því með einhverjum hætti að standa skil á þeim, en þá vakna spurningar hvort lánið muni bera verðtryggingu miðað við vísitölu í stað gengistryggingar. Svo er óvissa um vextina sem vera ber.

Þá er ljóst eins og kom fram í máli ráðherra að bankarnir hafa boðið höfuðstólsleiðréttingu sem í einhverjum tilvikum getur reynst hagfelldari fyrir lántakendur en að taka upp þetta erlenda lán.

Það er því alls óvíst hversu mikið staða einstakra lántakenda mun breytast verði þessi dómur staðfestur. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að stíga varlega til jarðar í yfirlýsingum og ekki síður fyrir almenning að varast að draga miklar ályktanir að svo komnu máli.

Við verðum öll að freista þess að eyða réttaróvissunni. Hún er óþolandi fyrir okkur öll.