138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:47]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Seinni dómur héraðsdóms er eitt dæmi um gjaldþrot verðtryggingar, hvort sem um er að ræða tengingu við gengi eða verðlag. Gjaldþrot verðtryggingarinnar má rekja til þess að hún ýtir undir áhættuhegðun lánastofnana. Bankarnir hvöttu fólk til að taka gengistryggð lán og tóku síðan stöðu gegn krónunni til að styrkja eigin efnahagsreikning. Verðtrygging lána með neysluvísitölu virkaði útlánahvetjandi fyrir lánastofnanir og skapaði hér aðstæður fyrir verðbólur. Nægir að nefna hlutabréfabóluna um aldamótin og nýsprungna fasteignabólu. Áhættusækni lánastofnana hefur þýtt að reglulega á sér stað mikil eignatilfærsla frá lántakendum til fjármagnseigenda. Verðtryggð lán kosta í flestum tilvikum meira en óverðtryggð lán þar sem verðtryggingin margfaldar lánsupphæðina á lánstímanum.

Frú forseti. Það er komið að endalokum verðtryggingar. Gera þarf fólki kleift að breyta gengistryggðum og verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán með fasta vexti í ákveðinn tíma. Slík aðgerð mun styrkja samstöðu lántakenda þar sem allir eru þá með sams konar lánskjör. Skortur á samstöðu meðal lántakenda er ein mikilvæg ástæða þess að ekki hefur farið fram höfuðstólslækkun á lánum heimilanna.

Frú forseti. Ég vil geta þess að Seðlabanki Íslands er nú að vinna skýrslu um leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar. Viðskiptanefnd fyrirhugar að halda opinn fund í byrjun mars þar sem ræða á niðurstöðu skýrslunnar og frumvarp framsóknarmanna um afnám verðtryggingar og þak (Forseti hringir.) á verðtryggingu.