138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Málshefjandi minntist á að eitt vandamálið væri að hæstv. ráðherra væri mjög áhugalaus. Ef einhver velktist í vafa um þessa fullyrðingu hv. þingmanns, málshefjanda, staðfesti hæstv. ráðherra það að hann er afskaplega áhugalaus þegar kemur að þessu. Hann svaraði engum spurningum frekar en fyrri daginn, enda er það kannski svo að þegar hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands lítur á Alþingi Íslendinga sem Morfís-keppni og finnst, svo ég vitni beint í orð hæstv. ráðherra, asnalegt að taka þátt í því þegar hann er orðinn fimmtugur af því að hann gerði það þegar hann var tvítugur erum við kannski ekkert í sérstaklega góðum málum.

Hér er málið mjög einfalt. Það er ótrúlegt að þessi réttaróvissa sé uppi. Það er ótrúlegt að fjármálastofnanir hafi gengið þannig frá hlutum. Og það er líka ótrúlegt að það hafi farið í gegnum þau eftirlitskerfi sem við vorum með. Þetta er hins vegar staðan. Stóra einstaka staðan er að það fólk sem keypti 2007 og 2008 er í miklum erfiðleikum. Staðreyndin er sú að menn hafa ýtt þeim vanda á undan sér. Hér vantar pólitíska forustu í landinu til að taka á þeim málum. Svo einfalt er það. Þetta fólk hefur séð mikla von í þessum dómi. Sama hvað hæstv. ráðherra segir mun þetta nýtast ýmsum vel ef niðurstaðan verður á þennan veg þó að það muni skapa vanda annars staðar.

Niðurstaðan er hins vegar sú að það þarf að leysa úr þessari réttaróvissu, allir eru sammála um það, en síðan komumst við ekki hjá því — og æskilegast væri að við mundum gera það saman — að vinna að því að finna lausn á vanda þessara heimila, sem bíða enn, en þeim var lofað úrlausn fyrir rúmu ári.