138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér eitt brýnasta mál sem lýtur að almenningi í landinu, þ.e. þann gjörning að bankar skuldsettu fólk í erlendri mynt án þess að gera því grein fyrir að það er algjörlega fráleit skuldsetning frá hvers konar hagfræðilegu og rökfræðilegu sjónarmiði nema það hafi tekjur á móti í erlendri mynt. Fjármálastofnanir blekktu fólk með því að láta það ekki vita af þessu. Auk þess að veita rangar upplýsingar tóku þessar sömu fjármálastofnanir stöðu gegn íslenska gjaldmiðlinum til að lagfæra sína eigin fjárhagsstöðu. Þetta er búið að vera alveg geggjað fjármálaumhverfi en því miður, hv. þingmenn, hefur afskaplega lítið breyst. Yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra í gær um algert aðgerðaleysi í málefnum fjármálafyrirtækja og banka er áframhald á mjög öfgakenndri frjálshyggju sem hér hefur riðið húsum. Það á ekkert að gera. Það kemur okkur ekkert við. Heimilin geta bara étið það sem úti frýs.

Það er ekkert réttlæti á Íslandi í dag — nema fyrir fjármagnseigendur. Það er ömurlegt að horfa upp á algert aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í því að hjálpa almenningi. Hér hefur komið fram hjá fleirum að eftirlitsstofnanir í þessu máli hafa brugðist, þær brugðust algjörlega, en þær eru enn þá fullmannaðar sama fólkinu og brást á sínum tíma.

Ég hef tæpt á því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að stjórnsýsluúttektir þurfi að fara fram á þessum stofnunum og samskiptum þeirra við fjármálaráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti en það er enginn vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, þingmanna þeirra eða ráðherra. Þess vegna erum við enn þá á sama ömurlega staðnum og almenningi blæðir. Orðið velferðarstjórn á við um ýmsar ríkisstjórnir, en ekki þessa.