138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa sóknaráætlun til að efla atvinnulíf og samfélag um allt land. Fyrirhuguð sóknaráætlun er liður í efnahagslegri endurreisn þjóðarbúsins og hefur það að markmiði að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að því hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma. Sóknaráætlunin felur í sér áform um fjárfestingu í atvinnustarfsemi, mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun umhverfismála og samfélagslega innviði. Grundvöllur atvinnustefnunnar skal vera fjölbreytni, jafnræði, heilbrigðir viðskiptahættir, jafnrétti og græn atvinnuuppbygging í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Skipaður hefur verið hópur sem hefur yfirstjórn með undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Lögð er áhersla á að breið samstaða náist um sameiginlega framtíðarsýn og lykilákvarðanir í endurreisnarstarfinu. Stýrihópnum er því ætlað að vinna verkefni í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, landshlutasamtök sveitarfélaga, hagsmunaaðila og hugmyndaríkt fólk á viðkomandi svæðum. Þá munu hlutaðeigandi ráðuneyti og undirstofnanir þeirra vinna með stýrihópnum að afmörkuðum þáttum.

Heildstæð sýn og sameiginleg markmið tryggja markvissari og öflugri áætlanagerð. Með sóknaráætluninni er ætlunin að samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Þannig verði stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana, þvert á ráðuneyti. Við stefnumótunina skal sérstaklega huga að hópum sem hætt er við atvinnuleysi til langs tíma í kjölfar efnahagshrunsins, gera áætlanir sem miða að samfélagslegri þátttöku og virkni allra auk þess að styrkja samfélagslega innviði velferðarþjónustu, menntakerfis og menningarlífs.

Ein grunnstoð verkefnisins er að kalla fram framtíðarsýn fyrir landið í heild og einstaka landshluta. Lagt verður heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifæri og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði mennta- og atvinnumála.

Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa unnið stöðuskýrslu um þróun íslensks samfélags síðustu 20 árin. Á vegum iðnaðarráðuneytisins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hafa verið unnar svokallaðar sviðsmyndir sem verða nýttar sem grundvöllur fyrir stefnumótunarvinnuna. Aðferðin hefur verið mikið notuð við gerð landshluta- og svæðisáætlana víða um heim og er sömuleiðis algeng við mótun og uppbyggingu klasa. Þá verða nýttar og samþættar stefnumótun sóknaráætlunar niðurstöður og hugmyndir sem fram komu á þjóðfundi sam haldinn var í nóvember 2009 að frumkvæði sjálfsprottins hóps sjálfboðaliða.

Önnur grunnstoð verkefnisins er hagræn greining til næsta áratugar, greining á samkeppnishæfni og mótun atvinnustefnu. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið mun hafa forustu um gerð hagrænnar greiningar til næsta áratugar í samvinnu við Seðlabanka og fjármálaráðuneyti og að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Þar vera skilgreindir lykilþættir sem áhrif geta haft á verðmætasköpun og hagsæld. Jafnframt verða dregnir fram styrkleikar og veikleikar íslensks efnahagslífs og lykilviðfangsefni sem stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Á grundvelli hennar verður sett fram forgangsröðun áherslna verkefna og fjárfesting í sóknaráætlun.

Árangursviðmið verða skilgreind, m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum mælikvörðum, og þeim fylgt frá ári til árs í þeim tilgangi að meta og bæta jafnt og þétt framvindu á einstökum sviðum. Í því augnamiði hefur verið settur á fót verkefnahópur um samkeppnishæfni sem er ætlað að móta áherslur sem aukið geta samkeppnishæfni landsins. Við mælingu á samkeppnishæfni er að grunni til gengið út frá greiningum og mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins sem Ísland er þátttakandi í. Að auki mun verkefnahópurinn líta til alþjóðlegrar samantektar rannsókna og verkefna á þessu sviði sem geta orðið mikilvæg eða áhugaverð viðbót við mælingar Alþjóðaefnahagsráðsins.

Fimm hópar skipaðir sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólaumhverfi munu rýna mælingar og gera tillögur til umbóta hver á sínu sviði.

Loks hefur verið settur á fót samráðshópur til þess að halda utan um vinnu við mótun atvinnustefnu. Honum ber að hafa víðtækt samráð við atvinnulíf, félags- og hagsmunasamtök. Sóknarfæri hefðbundinna atvinnuvega verða skoðuð en megináhersla verður á ný tækifæri til sóknar.

Þriðja grunnstoð verkefnisins er samþætting opinberra áætlana, endurskipulagning opinberrar þjónustu og efling sveitarstjórnarstigsins sem miðar að því að efla atvinnu, menntun og opinbera þjónustu. Þannig verður stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustigs og stofnana þvert á ráðuneyti. Lögbundnar áætlanir sem skal samþætta eru samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlanir í ferðamálum, áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Enn fremur áætlanir í mennta- og menningarmálum, áætlanir um þróun vísinda- og nýsköpunarumhverfisins, markáætlanir Vísinda- og tækniráðs og áætlanir í umhverfis- og skipulagsmálum.

Samþætt sóknaráætlun skal gerð fyrir landið í heild en jafnframt skulu unnar sóknaráætlanir fyrir einstök landsvæði þar sem landinu er skipt í átta svæði sem hvert um sig stefni að sameiginlegu markmiði til samfélagslegrar uppbyggingar. Landsvæðin eru: vestursvæði, Vestfjarðasvæði, norðvestursvæði, norðaustursvæði, austursvæði, suðursvæði, Suðurnes og höfuðborgarsvæði. Sérstaklega verða skoðaðir sameiginlegir sóknarmöguleikar svokallaðs suðvestursvæðis, þ.e. stórhöfuðborgarsvæðis, sem nái til alls suðvesturhluta landsins, þ.e. frá Borgarfirði í vestri til Árborgar í suðri.

Í sóknaráætlun fyrir landið í heild verði lagt heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifæri og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði mennta- og atvinnumála. Í áætluninni munu m.a. koma fram meginmarkmið, undirmarkmið, forgangssvið og forgangsverkefni sem miða að því að efla hagsæld og velmegun landsins í heild og auka lífsgæði og getu efnahags- og atvinnulífs til að standast alþjóðlegan samanburð.

Sóknaráætlun landshluta er ætlað að stuðla að því að tryggja eftir föngum að hver og einn landshluti nýti kosti sína og styrkleika til hins ýtrasta í þágu sömu heildarhagsmuna. Við núverandi aðstæður er skiptingu landsins í svæði jafnframt ætlað að skapa viðspyrnu í atvinnulífi og stuðla að sterkum samfélögum og lífsgæðum til framtíðar.

Landshlutasamtök sveitarfélaga munu gegna mikilvægu hlutverki við gerð áætlunar á hverju svæði. Gengið er út frá því að sveitarfélögin á hverju svæði vinni saman að ákveðnum verkefnum og að náin samvinna verði á milli svæða. Markmiðið er m.a. að efla burði svæða og sveitarfélaga til að taka að sér verkefni og auka valddreifingu. Sameinuð sveitarfélög innan svæða eða öflugt samstarf sveitarfélaga á hverju svæði fyrir sig er því í raun forsenda fyrir slíkum verkefnaflutningi. Almennt ætti þó að huga að því að hafa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem skýrasta, tryggja að tekjustofnar fylgi með verkefnunum og forðast þannig ágreining í kjölfar flutnings. Í því efni þarf jafnframt að hafa í huga stjórnsýsluverkefni sem nú eru hjá sveitarstjórnum en eiga betur heima hjá ríkinu.

Til undirbúnings sóknaráætlun landshluta hafa verið skipulagðir vinnufundir á hverju svæði þar sem sett eru fram stefnumótandi valkostir og þeir ræddir. Sá fyrsti var á Egilsstöðum 30. janúar og sá síðasti verður á höfuðborgarsvæðinu 20. mars nk.

Svo vel takist til við gerð sóknaráætlunar fyrir einstök svæði hefur átt sér stað greining á styrkleikum og veikleikum hvers svæðis. Vinnubrögðin og verklagið endurspegla gildin og eru þar að hluta til lögð til grundvallar gildi þjóðfundar um heiðarleika, réttlæti og virðingu. Fundir þeir sem haldnir hafa verið um land allt eru sniðnir eftir þjóðfundinum í Laugardalshöll. Mauraþúfan sem undirbjó það verkefni er meðal undirbúningsaðila að sóknaráætlun. Með þeim hætti virðum við þeirra mikilsverða frumkvæði. Ekki síður er þýðingarmikið að unnið sé að verkefninu á opinn og gegnsæjan hátt og að fólk og fyrirtæki, landshlutar og stofnanir geri það að sínu, eignist hlutdeild í því og líti á sóknaráætlun sem sitt tækifæri.

Í sóknaráætlun 20/20 felst ekki síst vilji til þess að opna á milli hólfa sem við höfum tilhneigingu til að halda hugsunum okkar og gjörðum innan á milli áætlana, milli landshluta, milli stofnana, milli ríkis og sveitarfélaga, og freista þess að sameinast í nýrri sýn, nýjum takti og árangursríkum aðferðum sem skila okkur áleiðis til betra samfélags.

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að þessari tillögu verði vísað til allsherjarnefndar, en set það að öðru leyti í hendur á forseta ef það er önnur nefnd sem þetta ætti frekar heima í.