138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir jákvæðni og víðsýni í ræðu sinni og það að sjá kjarnann í sóknaráætluninni sem snýst auðvitað um að samþætta opinberar áætlanir og gera það þannig að afl og frumkvæði hins opinbera nýtist sem best og að úthlutun opinbers fjár sé sem markvissust. Ég er sammála honum um að þetta snýst fyrst og fremst um það að skapa skilyrði fyrir fólkið í landinu og að forðast miðstýrða atvinnustefnu sem felur í sér einfaldar stórar lausnir við flóknum spurningum eins og stóriðjustefnan færði okkur á sínum tíma.

Vandræðalegra fannst mér þó í ræðu hans umræðan um rétt og rangt í stjórnmálum, þ.e. að hann telur að hér þurfi að fara saman jafnvægi í ríkisrekstrinum, en um leið að ekki sé hægt að innheimta skatta, meira en var á þeim tímum þegar sóknaráætlun Sjálfstæðisflokksins gekk út á það að auka muninn á ríkum og fátækum á Íslandi meira en nokkru sinni hafði verið gert í Íslandssögunni. Það var sóknaráætlun hægri stjórnarinnar og er á ábyrgð hægri stjórnarinnar. Og talandi um samkeppnishæfni eða fýsileika samfélaga þá er það nú svo að þau samfélög sem mestrar hylli njóta í veröldinni eru norrænu velferðarkerfin sem byggja á þrepaskiptum skatti, sem byggja á jöfnuði og félagslegu réttlæti en einmitt ekki hinni gjaldþrota hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Ég vil bara segja hv. þingmanni það að sú vinna sem hér er í gangi gengur afar vel og er í raun þverpólitísk því hún er í góðu samstarfi við sveitarstjórnarmenn um allt land. Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu, að hún haldi áfram og færi okkur stefnu sem geti (Forseti hringir.) staðist tímans tönn og verið eins og hún er hjá Írum þar sem hún nær yfir mörg kjörtímabil og snýst ekki í raun og veru um stefnumótun ríkisstjórnar heldur um stefnumótun þjóðar.