138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:33]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má eiginlega til með að nefna það orðfæri sem sjálfstæðismenn nota ítrekað í ræðustól, þ.e. að tala um aðstæður sem sköpuðust, nánast eins og þær hefðu fallið af himnum ofan og ekki eins og nokkur maður hafi komið að þeim ákvörðunum sem eru aðdragandi þessa og hægri menn og sjálfstæðismenn á Íslandi bera gjörsamlega ábyrgð á með tómat, sinnep og steiktum lauk, algjörlega, með öllu. Aðstæðurnar sköpuðust af efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Ég verð bara að segja eins og er, virðulegi forseti, að það er ekki eftirspurn eftir efnahagsráðgjöf frá Sjálfstæðisflokknum. Það er það bara ekki. Það væri óeðlilegt í hruninu miðju þegar við erum að reyna að skafa upp vitleysuna eftir Sjálfstæðisflokkinn að við værum hér andaktug að skrifa upp ráðgjöf frá virðulegum þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Góð ráð ávallt vel þegin og við skulum ræða þau, við skulum ræða prinsippin í skattapólitík og við skulum taka því öllu með opnum huga en ekki mæta í ræðustól og láta eins og maður hafi ráðin þegar maður ber ábyrgð á hruninu og verri stöðu en Ísland hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Mér finnst að það þurfi býsna mikið sjálfstraust til, virðulegi forseti, en það er kannski mikilvægt þegar maður er í sporum virðulegs þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins þessa dagana.