138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf mikilvægt að hafa sjálfstraust. Það væri óskandi að hæstv. ríkisstjórn hefði örlítið meira sjálfstraust og sérstaklega væri æskilegt að hæstv. umhverfisráðherra hefði örlítið meira sjálfstraust vegna þess að þá mundi hæstv. umhverfisráðherra taka virkari þátt í því að vinna þjóðina úr þeim erfiðleikum sem hún stendur svo sannarlega í og hæstv. ráðherra fór hér yfir.

Hvað varðar hlut einstakra flokka o.s.frv. í því sem hér hefur gerst er nægur tími til að ræða hann og hefur verið rætt út í nokkurn hörgul. Það sem skiptir máli fyrir íslenska þjóð núna er að við vinnum okkur út úr þeim vanda sem uppi er. Það er alveg ljóst í mínum huga, sama hvaða ræður hæstv. umhverfisráðherra eða aðrir hæstv. ráðherrar halda hér um það sem gerðist, að það sem þjóðin krefst af okkur, af okkur þingmönnum öllum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, er að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vinna þjóðina út úr vandanum. Það gerum við ekki, frú forseti, með þeim málflutningi sem við urðum vitni að hjá hæstv. umhverfisráðherra. Þvert á móti gerum við það með tillöguflutningi, með úrræðum og með því að vinna saman að lausn málanna. Við gerum það með því að hlusta hvert á annað.

Þegar við sjálfstæðismenn leggjum fram tillögur um hvernig hægt er að komast hjá því að hækka skatta á heimili sem hafa orðið fyrir gríðarlegum búsifjum vegna þess að lánin hafa rokið upp úr öllu valdi gengur ekki að segja eins og hæstv. umhverfisráðherra gerði hér áðan: Það er engin eftirspurn eftir einum eða neinum ráðum frá öðrum.

Þetta er svo þröngsýnt og það er svo sorglegt, frú forseti, að verða vitni að svona málflutningi. Þessi málflutningur hæstv. umhverfisráðherra mun engu breyta um það hverjar skyldur við sjálfstæðismenn teljum okkur hafa í þessum málum. Fyrsta og mesta skyldan okkar er sú að leggja gott til fyrir íslenska þjóð og berjast fyrir því að ekki sé haldið áfram í þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur farið sem hefur leitt til þess sem kom fram í dag, m.a. svo skýrt hjá hæstv. fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) að það dregur enn hraðar úr tekjum ríkissjóðs en menn töldu að yrði, m.a. vegna þess að valin hefur verið kolröng skattastefna. Það er svo einfalt.