138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þarna var hæstv. iðnaðarráðherra pínulítið óheppin, gæti verið að iðnaðarráðherrann hafi komið seint í salinn þannig að hæstv. ráðherra hafi ekki náð að hlýða á ræðu mína. Í það minnsta hafði hæstv. iðnaðarráðherra ekki hlýtt á andsvar hæstv. umhverfisráðherra sem hafði glaðst mjög yfir því að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hafði tekið mjög vel og af víðsýni í þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram, einmitt talað um meginkjarna þess máls sem væri jákvæður og fátt fundið sérstaklega að tillögunni. En þetta er í hnotskurn vandinn, eitt er skoðanir hæstv. iðnaðarráðherra og annað er skoðanir hæstv. umhverfisráðherra. Það er ekki bara í þessu litla máli, þ.e. málflutningi þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem ráðherrana greinir á heldur almennt um það hvernig eigi að standa að atvinnuuppbyggingunni. Er það hið erfiðasta.

Jafnframt verður að segjast eins og er að miðað við hvernig saga hæstv. iðnaðarráðherra er í því að fylgjast með því sem er að gerast innan ríkisstjórnarinnar mundi ég í sporum hæstv. ráðherra fara varlega í að kveða upp dóma án þess að hafa kynnt mér málin. Frægt varð þegar hæstv. iðnaðarráðherra kom algjörlega af fjöllum þegar (Gripið fram í.) settur hafði verið alveg gríðarlega hár skattur á iðnaðinn í landinu, allan orkuiðnaðinn, sem olli gríðarlegu tjóni strax og setti þann iðnað alveg upp í loft.

Reyndar var ég ánægður með viðbrögð hæstv. iðnaðarráðherra sem reyndi auðvitað að streitast á móti ákvörðunum hæstv. fjármálaráðherra sem birtist í fjárlagafrumvarpi og náði að snúa þær niður. Það er dæmi um hvernig ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur í þessum þáttum.

Þegar menn segja að það séu draumórar að halda því fram að ekki hafi þurft að hækka hér skatta er það rangt. Þeir sem segja það hafa þá ekki kynnt sér út í hörgul þær tillögur sem við sjálfstæðismenn lögðum fram sem voru akkúrat um það hvernig við getum, bæði með atvinnuuppbyggingu og með því að nýta þá peninga sem ríkissjóður átti í séreignarsparnaðinum — þeir liggja þar á bók — til að koma í veg fyrir að skattar og álögur á heimilin á Íslandi (Forseti hringir.) hækkuðu þegar íslensku heimilin hafa átt hvað erfiðast og mest undir högg að sækja.