138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að biðjast afsökunar á að hafa haldið því fram að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki verið að fylgjast með. Ef hæstv. ráðherra fylgdist með ber að sjálfsögðu að virða það. Þá stendur verr og þykir mér nokkuð farið að syrta í álinn fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að sá sem hér stóð fór einmitt yfir þá tillögu sem hér er verið að ræða, ágætistillögu sem ég sé ekkert athugavert við. Það var engin rósmælgi um það, ég fór yfir það sem ég tel að sé heppilegt í því. Hæstv. ráðherra verður hins vegar að skilja að náttúrlega eru borin saman orð og gjörðir, þ.e. hvað ríkisstjórnin er að gera þessa dagana, undanfarnar vikur, mánuði og missiri og það borið saman við þau orð sem eru í tillögunni. Það er það sem er verið að tala um. Það er ekki verið að tala niður tillöguna.

Ef hæstv. ráðherra þykir það vera að tala niður tillögu að bera saman orð ríkisstjórnar sem birtast í tillögunni og síðan gjörðir ríkisstjórnarinnar og lítur á það sem niðurrifsstarfsemi er lítið við því að gera. Þar er sennilega um að ræða, frú forseti, einhvers konar samviskubit sem hrjáir ráðherrann. Það er alveg eðlilegt að svo sé vegna þess að það sem hefur gerst hér á undanförnum mánuðum er að ríkt hefur stöðnun, menn hafa ekki gripið þau tækifæri sem hafa gefist, það hefur verið óeining í ríkisstjórninni (Iðnrh.: Það er rangt.) um atvinnu — Hér kallar hæstv. ráðherra fram í að þetta sé rangt. Hvernig skyldi standa á því að okkur hefur gengið svona illa að nýta þau tækifæri sem þó hafa boðist, m.a. vegna þess að hér standa tveir hæstv. ráðherrar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, sem hafa ekki náð að samþætta gjörðir sínar og stefnu til að vinna Íslandi heilt í þessu máli? Eftir stendur það að þegar við ræðum um samkeppnisstöðu þjóða er það einmitt hvernig við stöndum að skattamálum, því að stjórnkerfi virki vel og að það sé festa í stjórnarathöfnum öllum. Það hefur, frú forseti, ekki verið svo á undanförnum mánuðum. Lítil festa hefur verið í þessu og lítið gagn að þessari ríkisstjórn fyrir heimilin (Forseti hringir.) og fyrirtækin í landinu. Það er ekki bara þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sem segir það, það segir forseti Alþýðusambands Íslands og það segja líka forsvarsmenn og talsmenn Samtaka atvinnulífsins.