138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:47]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum nú til umræðu tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, sem flutt er af hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég vil fyrir það fyrsta þakka forsætisráðherra fyrir að hafa hrint þessari áætlun í framkvæmd. Þetta er samkomulag sem kemur frá ríkisstjórninni úr stjórnarsáttmála hennar um að þetta skuli gert. Sem merki um mikilvægi málsins er það unnið á vettvangi forsætisráðuneytisins undir forustu forsætisráðherra og með varaformönnum stjórnarflokkanna, þ.e. varaformanni Samfylkingar og varaformanni Vinstri grænna, sem taka þetta mál að sér og fylgja því eftir. Það er, virðulegi forseti, gott dæmi um þá mikilvægu áætlun sem hér er verið að setja fram og þann metnað sem í henni er, sem er talsvert mikið öðruvísi en var á árum áður þegar forsætisráðuneytið losaði sig við byggðamálin í tíð Davíðs Oddssonar og tók þá illu heilli við Seðlabankanum og efnahagsmálum í staðinn úr viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu, ef ég man rétt. Þetta er dæmi um það.

Ég sat á þingi þegar byggðamálin voru tekin frá forsætisráðuneytinu. Ég tel að það hafi verið mjög misráðin aðgerð vegna þess að þetta eru heildstæðar áætlanir, þetta er heildstætt mál sem á að mínu mati að vera vistað í forsætisráðuneytinu eins og gert er hvað varðar þá sóknaráætlun sem hér er lögð fram. Þetta er metnaðarfull áætlun og þess vegna fagna ég þeim kafla í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar þar sem hann fjallaði efnislega um þingsályktunartillöguna, hann fagnaði henni, taldi tímabært og jákvætt að leggja hana fram og setja saman þær lögbundnu áætlanir sem hér er m.a. talað um, og talaði um aga og samvinnu. Þetta var það jákvæða frá hv. þingmanni, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um tillöguna. Síðan gat hv. þingmaður náttúrlega ekki stillt sig um að hnýta svolítið í ríkisstjórnina um skatta og uppbyggingu á hruninu, sem var í boði Sjálfstæðisflokksins, en það er allt annar handleggur og ég ætla ekki að fara út í það nú vegna þess að það kallar á annars konar umræðu. En ég vil samt þakka þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins fyrir það hve hann tók þó jákvætt í þessa áætlun þó að hann hafi svo, eins og ég sagði, farið út af sporinu og ekki klárað sinn tíma um áætlunina heldur farið út í efnahagsmál og slíkt, en það er hans mál.

Þetta er metnaðarfull áætlun og ég hef átt þess kost að vinna í stýrihópi um þetta mál og samgönguráðuneytið hefur tekið virkan þátt í vinnu þessa plaggs. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeirri vinnu, hvernig þetta er unnið faglega og skipulega áfram. Ég get tekið sem dæmi að fljótlega í þessari vinnu varð til svokölluð svæðaskipting sóknaráætlunar sem sett var fram og sést í þingsályktunartillögunni, sóknarsvæði sem ég er ákaflega ánægður með hvernig sett voru niður og að væru þó ekki stærri en þetta á landsbyggðinni, vegna þess að ég sé fyrir mér að þessi sóknarsvæði smellpassa við aðrar áætlanir og endurskipulagningu sem nú á sér stað, þ.e. stórátak í vinnu hvað það varðar að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaga, og unnið er að á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í framhaldi af yfirlýsingu sem formaður sambandsins og ég undirrituðum síðastliðið haust, mjög metnaðarfull umræða sem fer fram eftir landshlutum og þar m.a. koma þessi sóknaráætlunarsvæði inn. Það var mikill áfangi þegar þetta náðist og var lagt fram.

Virðulegi forseti. Á þeim tíu mínútum sem ég hef til umræðu um þingsályktunartillöguna kemst ég auðvitað ekki yfir allt saman, en hér ræðum við um sóknaráætlun fyrir Ísland í heild sinni en síðan sóknaráætlun landshluta sem er ætlað að stuðla að því að tryggja eftir föngum að hver og einn landshluti nýti sína kosti og styrkleika til hins ýtrasta í þágu sömu heildarhagsmuna. Þetta er ákaflega metnaðarfullt sem þarna kemur fram og sóknaráætlun landshluta er hlutur sem ég hef lengi barist fyrir og verið þeirrar skoðunar að fara eigi meira heim í hérað þar sem þetta er unnið eins og hér er sett upp. Því segi ég það að þetta er sennilega ein metnaðarfyllsta byggðaáætlun sem sett hefur verið fram og hefur þetta nafn núna, sóknaráætlun, vegna þess að við ætlum að samþætta hér fjölmargar áætlanir eins og samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, áætlanir í ferðamálum, áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og síðast en ekki síst áætlun um stækkun og eflingu sveitarfélaganna.

Með þessari svæðaskiptingu er talað um að styrkja samkeppnishæfni svæða og landsins í heild, efla getu svæða og sveitarfélaga til þess að taka að sér verkefni og stuðla þannig að aukinni valddreifingu. Þetta er mikilvægt atriði í verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga. Ég hef sagt að þegar sveitarfélögin verða orðin færri og stærri í átt að sóknaráætlunarsvæðunum, hvort sem innan þess svæðis verða eitt, tvö eða þrjú sveitarfélög eða fleiri, komi margt til tals í því að færa frekari verkefni heim í hérað og ég hef ekki hikað við að nefna verkefni á vegum samgönguráðuneytisins eða samgönguverkefni.

Allt er þetta hið besta mál sem hér er sett fram og þegar komið er á bls. 8 er talað um sóknaráætlun hvers landshluta sem fela í sér stefnumörkun og áherslur á eftirfarandi sviðum: Atvinnuþróun, mannauð, félagsauð, innviði, leikreglur og mælanleg markmið.

Ég ætla að gera tvö atriði að umtalsefni, annars vegar atvinnuþróun þar sem lögð verður áhersla á möguleika í nýsköpun og skapandi greinum, sjálfbærni í nýtingu auðlinda, svo sem jarðorku og vatnsorku og uppbyggingu og þróun í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Ég get nefnt strax, virðulegi forseti, hvað þetta varðar Norðausturland sem er eitt sóknarsvæði og þá miklu vinnu sem er í gangi í Þingeyjarsýslum við að nýta þá miklu orku sem þar er, eins og gert er á höfuðborgarsvæðinu. Og það er gaman að segja frá því að miðað við þau gögn sem maður hefur séð upp á síðkastið hvað þetta svæði varðar þá er mjög margt að gerast á þessu svæði. Það kemur m.a. í framhaldi af viljayfirlýsingu sem hæstv. iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir undirritaði við Norðurþing, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, þar sem talað er um að aðilar séu sammála um mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu, og ég legg sérstaka áherslu á þetta, á svæðinu sjálfu.

Stundum er talað um að það sé ekkert að gerast á þessu svæði og þarna sé allt stopp en það er bara alls ekki rétt. Það er mjög margt að gerast á þessum orkunýtingarsvæðum, hvort sem það er Bjarnarflag, Þeistareykir eða Krafla. Þarna eru nú að blása út í loftið um 100–110 megavött sem hægt er að virkja og nota og nýta til atvinnuuppbyggingar. Alls er talað um í umhverfismati fyrir þetta svæði að þarna megi virkja um 440 megavött og þá er ég ekki að tala um djúpborunarverkefni sem þar eru inni. Þetta er allt hið besta mál og er í góðum farvegi þrátt fyrir að ýmsir tali um að þarna sé ekkert að gerast. Það er mjög margt að gerast á þessu svæði og mjög margt sem mun verða lokið við þarna hvað varðar umhverfismat og fleiri þætti. Ég er mjög bjartsýnn á að sú vinna haldi áfram á þessu ári og um leið og fer að birta frekar til í efnahagsmálum þjóðarinnar að loknu Icesave-máli muni strax skapast tækifæri til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á þessu svæði eins og viljayfirlýsingin segir til um og að þarna hefjist atvinnuuppbygging.

Ég ætla þá að koma, virðulegi forseti, á þeim tveimur mínútum sem ég á eftir, að hinu atriðinu, þ.e. innviðum. Þar verður lögð áhersla á samgöngumannvirki, fjarskipti, orku- og veitukerfi og opinbera þjónustu, svo sem umhverfismál, lagaumhverfi, eftirlits- og öryggismál og skattkerfi. Ég ætla aðeins að stoppa við þann þátt sem varðar samgöngumannvirki, fjarskipti, orku- og veitukerfi.

Samgöngumannvirki og samgönguáætlun mun taka mið af þessari sóknaráætlun og verða sett saman þannig að þessir þættir vinni saman og eins er með fjarskiptaáætlun. Það er gaman að segja frá því, virðulegi forseti, að það er gott dæmi um hve mikill árangur er að nást núna í fjarskiptum á landsbyggðinni, þ.e. hvað varðar háhraðauppbygginguna, að ekkert er um hana rætt lengur og það er sennilega besta dæmið um það að verkefnið gengur vel. Síminn er að vinna þetta verkefni og það er sennilega á undan áætlun, eitt mikilvægasta byggðaatriðið sem unnið hefur verið að í langan tíma, þ.e. að koma háhraðatengingum til hinna 1.700–1.800 heimila á landsbyggðinni.

Samgönguáætlunin verður, eins og hér er talað um, samþætt þessu og mun auðvitað taka mið af þeim áætlunum sem hér koma fram. Ef ég horfi t.d. á sóknaráætlunarsvæðið Vestfirði hafa mjög ánægjulegir fundir farið fram þar um sameiningu Vestfjarða í kannski eitt sveitarfélag og inn í það blandast auðvitað talsvert átak eða stórátak í samgöngumálum, þ.e. að tengja suðurfirðina við norðurfirðina. Ef ég fer austur fyrir þar sem þeir metnaðarfullu sveitarstjórnarmenn sem þar vinna ályktuðu snemma um það að kanna kosti og galla á Austurlandi sem einu sveitarfélagi, þá hlýtur, eins og kom fram á þingi Sambands sveitarfélaga, samgönguáætlun fyrir þetta svæði að liggja frammi. Og eins og einn fulltrúi þar sagði, það skiptir engu máli þó að þetta sé 15 eða 20 ára áætlun, aðalatriðið er að lögð sé fram áætlun fyrir þetta svæði sem er liður í þessari sóknaráætlun og unnið verði markvisst að henni, því að eins og kom (Forseti hringir.) fram hjá hæstv. forsætisráðherra er þetta sóknaráætlun fyrir allt landið. Þetta er ekki sóknaráætlun fyrir eitt kjörtímabil, við eigum (Forseti hringir.) að geta búið til sóknaráætlun sem dugar til að vinna eftir í mörg, mörg ár og í mörg, mörg kjörtímabil án tillits til þess hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn á hverju tímabili.