138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er jákvætt að líta til framtíðar og horfa til þess að efla samkeppnishæfni landsins, samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum valkostum fyrirtækja sem eru að byggja upp sína starfsemi og ekki síst gagnvart erlendum aðilum sem eru tilbúnir að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Þetta eru fögur orð á blaði sem koma í þessari sóknaráætlun um eflingu á atvinnulífi og samfélagi um allt land en það er eins og þessari blessaðri ríkisstjórn, virðulegi forseti, sé ekki sjálfrátt þegar kemur að þessum málum. Á sama tíma og hún setur þessi fögru orð á blað og þessar væntingar hefur hún ekki gert annað en rýra það samkeppnisforskot sem íslenskt atvinnulíf hefur haft og íslenskar aðstæður bjóða upp á, rýra það samkeppnisforskot sem við höfum haft á aðrar þjóðir sem hefur laðað hingað erlenda aðila til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi. Þetta birtist í skattastefnu ríkisstjórnarinnar, þetta birtist í öllum þvergirðingum sem hún leggur fyrir orkufrekan iðnað og þannig má lengi telja. Þetta eru misvísandi skilaboð. Nú er svo komið, og þetta hefur verið staðfest af hæstv. iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar, að þau fyrirtæki sem við höfum staðið í viðræðum við á undanförnum mánuðum hverfa á braut, þau eru farin að líta annað. Maður spyr sig að því hvort einhver alvara sé í þessu eða hvort þetta sé bara enn eitt skrifræðið, enn ein vísan, enn ein fögru orðin um fallegt og öflugt samfélag.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins viðhafði þau orð á dögunum að það væri kominn tími til þess að ríkisstjórnin hætti að tala og færi að framkvæma. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að vinna eftir. Hún hefur verið í því að setja fögur orð á blað og kjafta sjálfa sig upp í því að byggja upp öflugt atvinnulíf og að hér séu allar aðstæður mjög flottar en efndirnar eru engar. Varðandi þessa áætlun er því hrósað úr ræðustól Alþingis hvernig að undirbúningi hefur verið staðið á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélög gagnrýna hve lítið samráð hefur verið haft um þetta mál.

Það er eins og þetta fólk, virðulegi forseti, sé í fílabeinsturni. Það áttar sig ekki á því hver staðan er í okkar samfélagi. Það sést best á þeirri dagskrá sem er hér í dag, þeim málum sem eru til umræðu. Við ræðum sóknaráætlun mörg ár fram í tímann og skipun rannsóknarnefndar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak sem var árið 2003. Þetta fólk er blint og er alltaf að reyna að hreinsa gleraugun sín. Það sér ekki neitt. (Samgrh.: Er þér illa við að það sé skoðað?) Nei, mér er ekkert illa við að það sé skoðað. Það hefur margverið skoðað, hæstv. ráðherra, og lagadeild Háskóla Íslands — Eiríkur Tómasson prófessor skrifaði greinargerð um það mál og fór ítarlega yfir það. Við höfum annað við peningana að gera núna en svona helvítis kjaftæði.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að gæta virðingar Alþingis og málflutnings á hinu háa Alþingi.)

Virðulegi forseti. Ég passa mig á því að gæta virðingar Alþingis en þau orð sem ég viðhafði hér eru hárrétt og eiga vel við í þessu sambandi.

Ég vil biðja menn að líta í nærtíma. Staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir er mesta böl samfélagsins í áratugi sem er vaxandi atvinnuleysi en 14.705 manns eru atvinnulausir á Íslandi í janúar. Það hefur aukist um 929, hæstv. forsætisráðherra, frá því í desember þrátt fyrir öll góðu orðin ykkar um að allt sé í góðu lagi. Aðgerðir gagnvart þessu fólki eiga að snúast um atvinnusköpun í nútímanum, aðgerðir sem þarf að taka til núna. Á síðasta ári var gerður stöðugleikasáttmáli sem miklar vonir voru bundnar við. Þar segir að unnið verði skipulega að úrvinnslu áforma um stórfjárfestingar í atvinnulífi þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra. Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir og stefnt að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009. Það var fyrir sex mánuðum síðan, virðulegi forseti.

Um þetta segja aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ, með leyfi forseta: Við þetta hafa stjórnvöld ekki staðið og lítið sem ekkert rætt við lífeyrissjóðina um hugmyndir, hvað þá framkvæmdir. Umhverfisráðherra hefur lagt steina í götu framkvæmda við álver í Helguvík, virkjana í Neðri-Þjórsá og það mætti fleira telja til. Á miðstjórnarfundi ASÍ kom fram megn óánægja með áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á framgangi stöðugleikasáttmálans. Þar segir: Nú virðist ríkisstjórnin vilja sem minnst af króganum vita. Þetta er óásættanleg staða þegar atvinnuleysi fer vaxandi og sífellt fleiri heimili stefna í þrot. Aðgerða stjórnvalda er krafist. Samtök atvinnulífsins segja í sinni bókun, með leyfi forseta: Með aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu er ríkisstjórnin að tryggja minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt almennings og takmarka getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðarkerfið í landinu.

Þetta er einkunnagjöf aðila vinnumarkaðarins til þessarar ríkisstjórnar. Þetta er einkunnagjöf þeirra sem eru fulltrúar þjóðarinnar, launafólks og fulltrúa fyrirtækjanna: falleinkunn. Segja má að virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins kristallist í orðum félagsmálaráðherra í blaðaviðtali um helgina þegar hann kallaði útgerðarfólk spilafífl og apaketti. Það fólk sem stendur undir grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og færir okkur mestar þjóðartekjur. Þetta er virðing hæstv. ríkisstjórnar fyrir þessu fólki.

Ríkisstjórnin og fulltrúar hennar koma fram og fullyrða að vandamál í eflingu atvinnulífs eigi sér rætur í erfiðri fjármögnun verkefna. Ég blæs á þetta sem staðreynd, virðulegi forseti. Þessi þjóð á 1.800 milljarða í lífeyrissjóðum og það er ekkert vandamál fyrir hana að standa undir þeim nauðsynlegu framkvæmdum sem hægt er að setja strax af stað til eflingar atvinnulífi. Hún er gagnrýnd af lífeyrissjóðunum og aðilum vinnumarkaðarins fyrir að hafa ekki rætt við lífeyrissjóðina eins og lofað var og átti að gerast fyrir 1. september. Svo koma menn og kenna þessu um. Þetta fólk sér ekki út fyrir þennan fílabeinsturn. Það er alltaf í söguskoðun en horfir ekki til framtíðar. Þeim er ómögulegt að horfa inn í framtíðina af einhverju viti.

Við erum með sjúkling sem er atvinnulífið okkar. Þegar þú ert með alvarlega veikan sjúkling bregstu við því með því að veita þær bráðaaðgerðir sem hægt er. Þú reynir að koma á stöðugleika hjá sjúklingnum og síðan ferðu að horfa til framtíðaruppbyggingar hans. Er þá nema von að orð á blaði eins og í þessari þingsályktunartillögu missi marks? Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið er að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.“

Er nema von, virðulegi forseti, að mér og fleirum finnist þetta vera innantómt orðagjálfur þegar efndir ríkisstjórnarinnar gagnvart því sem svo nauðsynlegt er að bregðast við eru með þeim hætti sem raun ber vitni? Það er ekki hægt að búa við þetta lengur. Þessi ríkisstjórn verður að taka sig saman í andlitinu og koma málum í gang eða þá fara að fordæmi þeirra sem hafa sagt að það sé kominn tími til að hún taki sér frí.