138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur enginn unnið eins mikil skemmdarverk á íslenskri þjóð og íslensku samfélagi og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og stefna hans undanfarin ár, því miður. Þannig er það bara.

Hv. þingmaður talar um efnahagshrunið um heim allan. Það er rétt að það er ekki sjálfstæðismönnum á Íslandi að kenna en það er skoðanabræðrum sjálfstæðismanna um heim allan að kenna, (Gripið fram í.) þessari óheftu (Gripið fram í.) frjálshyggju og rugli og vitleysu.

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður hefur lesið upp úr þingsályktunartillögunni í þær þrjár mínútur sem ég þurfti að fara úr sal bið ég afsökunar á því. Hann hefur farið inn í þingsályktunartillöguna og ég fagna því. Hv. þingmaður talar hins vegar oft um að hér sé unnið gegn atvinnusköpun í landinu. Ég endurtek þá spurningu sem ég bar upp við hv. þingmann og hann svaraði ekki: Er hann sammála Viðskiptaráði sem talaði í gær um stórkostlegan niðurskurð í samgönguframkvæmdum á þessu ári? Er hann sammála því? Er hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sú að fara frekar í hið opinbera kerfi og skera niður? Á að skera þessar framkvæmdir niður?

Virðulegi forseti. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Er það sem er að gerast á Suðurnesjum ekki dæmi um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, að þetta er að byrja að lyftast upp og þar á meðal í atvinnusköpun og uppbyggingu fyrirtækja? Ég hef séð áætlun af Suðurnesjum þar sem gert er ráð fyrir tæplega 3.000 nýjum störfum á þessu ári, frá einu sveitarfélagi sem hefur séð um þetta, þar sem 2.400–2.500 eru fullborgandi útsvarsgreiðendur á því ári.

Virðulegi forseti. Reykjanesbæ er ekki stjórnað af Samfylkingunni, henni er stjórnað af sjálfstæðismönnum. Þarna er þessi áætlun komin fram, og er þetta ekki dæmi um að margt sé að snúast hér við? Það er mikil atvinnuuppbygging á Suðurnesjum samkvæmt þessum tillögum sem þar koma fram og er það ekki gott dæmi um það sem er að byrja að gerast í þessu þjóðfélagi? Ég held það, virðulegi forseti. Netþjónabú, Helguvík, kísilflúorverksmiðja (Forseti hringir.) o.s.frv. þannig að það er margt að gerast. Mig langar til að fá hv. þingmann til að tjá sig (Forseti hringir.) um þessar tvær spurningar sem ég bar fram.