138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson fer mikinn um meint aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og af því tilefni finnst mér rétt að draga fram nokkrar staðreyndir um einmitt samstarfið sem hefur verið við lífeyrissjóðina alveg frá því að stöðugleikasáttmálinn var undirritaður. Á matseðli, ef við getum sagt sem svo, verkefnalistans er eitt verkefni langstærst sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld komu sér saman um og það er bygging nýs Landspítala. Það verkefni mun skapa nokkur þúsund störf í íslensku atvinnulífi á komandi árum, verkefni upp á heila 55 milljarða kr., og það er á mikilli siglingu á réttri leið. Nýlega var haldið forval um hönnun þessa verkefnis og ein sex teymi íslenskra arkitektastofa skiluðu þar inn gögnum þannig að þar er allt eins og blómstrið eina, ef svo má segja.

Annað stærsta verkefnið á þessum lista var framkvæmdir í vegamálum. Þar hefur þegar verið unnið vandað arðsemismat á vegum Vegagerðarinnar og tekin pólitísk ákvörðun um að setja í forgang sérstaklega tvö verkefni, tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsveg. Það verkefni er nú í þeim farvegi að fulltrúar allra þingflokka á Alþingi eru að ræða fjármögnun þess verkefnis til framtíðar, sérstaklega hvort og þá með hvaða hætti eigi að setja á veggjöld sem taki þá við af öðrum þeim gjaldstofnum sem í dag eru af umferðinni.

Ég nefni líka átaksverkefni sem ríkisstjórnin kynnti á föstudaginn var um m.a. 2.400 verkefni fyrir ungt fólk, 500 verkefni í byggingariðnaðinum sem Nýsköpunarmiðstöð mun halda utan um á vori komanda (Forseti hringir.) og stofnun nýs sjóðs sem mun efla uppbyggingaraðstöðu í ferðaþjónustu (Forseti hringir.) þannig að það er margt að gerast í atvinnumálum.