138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:32]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson tekur allt of stórt til orða að mínu mati og fer ekki rétt með staðreyndir. Það er rétt hjá honum að 6. mars voru kynntar aðgerðir í atvinnumálum sem eiga að skapa, ef ég man rétt, 6.000 störf á komandi missirum. Yfirlit sem ríkisstjórnin lét fylgja með boðuðum aðgerðum til næstu mánaða og missira sl. föstudag hafði að geyma upplýsingar einmitt um efndir á þessum fyrirætlunum og fram kom að vel á þriðja þúsund störf hafa þegar orðið til tengd þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti til sögunnar 6. mars. Auðvitað er ekki allt komið til framkvæmda enda stóð það ekki til. Þar voru ýmis verkefni sem taka lengri tíma í undirbúningi og velta milljörðum og milljarðatugum.

Hv. þingmaður nefnir Landspítalann og staðsetninguna. Ég held að hún sé mikilvægt atriði og ein af ástæðunum fyrir því að þetta verkefni er einmitt mjög mikilvægt í atvinnulegu tilliti og fyrir búskap ríkisins. Landspítalinn er í dag með starfsemi sína á einum tíu stöðum víðs vegar um borgina með því mikla óhagræði og sóun á fjármunum sem því fylgir. Það er mjög til bóta að koma þeirri starfsemi á einn stað inni í miðri borginni og mun spara að því talið er hátt í 2 milljarða kr. á hverju ári. Þótt ég taki undir með hv. þingmanni að eitt brýnasta verkefni okkar núna sé að ráðast til atlögu við atvinnuleysið og ég telji að menn séu nákvæmlega að gera það með þessum aðgerðum í atvinnumálum til skemmri tíma, sem og þessum risastóru verkefnum til lengri tíma, þá er mikilvægt að við höldum vel upp á að ákveðnar aðgerðir hafa þegar komið til framkvæmda og aðrar eru í pípunum.