138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nokkur orð í lokin á þessari ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um atvinnuuppbyggingu í landinu, mikilvægi þess að ráðast gegn atvinnuleysisvofunni sem er núna upp vakin, því miður, í landinu, um 9% atvinnulausir, um 15.000 manns. Það þýðir að atvinnuleysið er farið að snerta hag tugþúsunda Íslendinga vegna þess að, eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag, í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, ætla má að hverjum atvinnulausum einstaklingi tengist fáeinir aðrir, fjölskylda og síðan aðrir í nærumhverfinu.

Ég held að sjaldan hafi verið reynt að taka á atvinnumálunum af eins miklu viti og nú er gert. Menn hafa verið með hinar stóru miklu patentlausnir á undanförnum árum og því miður hefur örlað á slíku í málflutningi sumra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað. Ég vísa þar í ræðuhöld hv. þm. Jóns Gunnarssonar sérstaklega sem hefur haldið sig við stóriðjuhugsunina. Ég vék að því í dag við utandagskrárumræðu um atvinnuleysið að stóriðjan hefði í reynd skilað miklu færri störfum inn í efnahagslífið en margir ætla.

Það er vissulega svo að meðan á uppbyggingunni stendur krefst hún margra vinnandi handa. Þegar því átaki er lokið eru ekki ýkja mörg störf sem rekja má til stóriðjunnar. Ég byggði upplýsingar mínar á grein sem Indriði H. Þorláksson, fyrrum skattstjóri á Íslandi, skrifaði í fyrrahaust. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Frá því að fyrsta álverið var byggt hér á landi hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um nálægt 85.000 manns. Megi rekja um 3.000 þessara starfa til álvera er það um 3,75% af aukningu mannaflans frá um 1970 og er um 1,7% af vinnandi mönnum í landinu nú. Ekki verður því sagt að þáttur álvera í sköpun atvinnutækifæra hafi verið stór né hlutur þeirra á vinnumarkaði sé mikill.“

Síðan velti ég fyrir mér hvenær komi að því að við lærum af óförum okkar á undanförnum árum þrátt fyrir varnaðarorð sem komu frá Seðlabanka, gott ef ekki frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD um … (JónG: … Davíð Oddsson?) Það var fyrir hans tíð, það var hann sem var gerandinn og verkstjórinn í uppbyggingu stóriðjunnar þegar þetta var gagnrýnt. Þá var sagt að þessi mikla innspýting í efnahagslífið vegna stóriðju hefði skaðleg áhrif á aðra atvinnustarfsemi. Þar var talað um að ruðningsáhrif í því sambandi yllu mikilli tímabundinni þenslu og háum vöxtum sem ryddu öðrum atvinnufyrirtækjum út af landakortinu. Við þessu var varað margoft í þessum stóli í umræðu á Alþingi en það er eins og menn neiti að læra af mistökunum. Ég ítreka það, af því að hér eru komnir fleiri sjálfstæðismenn sem hafa haldið sig við þessa málafylgju, að þegar upp er staðið hefur stóriðjan skilað miklu færri störfum inn í efnahagslífið en mér finnst þeir stundum láta í veðri vaka í sínum málflutningi.

Síðan er á hitt að líta að við þurfum að horfa til virðisaukans sem hver atvinnugrein skapar í þjóðarbúinu. Þá er það staðreynd að stóriðjan í eignarhaldi erlendra aðila skilar miklu minni virðisauka í efnahagskerfið en margar aðrar atvinnugreinar gera, sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan o.s.frv. Það var ánægjulegt að lesa fréttir af því í dag að ferðaþjónustan blómstrar nú sem aldrei fyrr, skilaði raunaukningu í hagnaði, um rúmlega fimmtung, 21%, á síðasta ári en fram kom í fréttum að tekjurnar af erlendum ferðamönnum á síðasta ári hefðu verið 155 milljarðar kr. og hefðu aldrei verið eins miklar.

Því ber að fagna að nú skuli hugað að atvinnuuppbyggingu með fjölbreytni í huga. Stuðningur við sprotafyrirtæki er af þessum meiði. Gamalkunnugt orðtak minnir og á að margt smátt gerir eitt stórt. Enn eru þó margir eins og ég hef rakið við það heygarðshornið að aðeins með því að hugsa í stórum einingum megi gera stóra hluti. Bara stóriðja geti leyst vanda okkar og skapað þeim þúsundum vinnu sem nú eru án hennar. Reynsla og staðreyndir tala öðru máli og til hvors tveggja eigum við að horfa, til reynslunnar og til staðreyndanna.

Þá er annað sem ég legg líka áherslu á og kom einnig fram í umræðu um atvinnumálin fyrr í dag, að horfa til starfanna innan almannaþjónustunnar, starfanna á sjúkrahúsunum, í þjónustugeira við aldraða, fatlaða, innan löggæslunnar, tollgæslunnar, hjá þeim sem sinna grundvallarþjónustu í samfélaginu og eru lífsnauðsynlegir, bæði einstaklingunum, fjölskyldunum og atvinnulífinu. Þetta hefur einnig ýmis önnur sjónarhorn, ýmsar víddir sem bent hefur verið á. Í almannaþjónustu, sérstaklega í heilbrigðisgeiranum og þeirri starfsemi sem sinnir fötluðu fólki, starfa hlutfallslega fleiri konur en karlar þannig að niðurskurður og samdráttur þar leiðir af sér að konur missa vinnuna fremur en karlar. Á hitt er að líta að í hruninu hafa karlastörf einkum orðið samdrættinum að bráð, ekki síst í byggingariðnaði. Þar hefur verið mikill samdráttur og þar þurfum við að huga að verkefnum sem eru til þess fallin að finna fólki þörf og arðvænleg verkefni. Þar hafa menn horft til viðhaldsverkefna sem hafa þann kost að þau eru ekki bundin við stað. Það þarf að sinna þeim hvarvetna á landinu. Þau eru hagstæð í því efni. Þau eru mannaflsfrek og ekki ýkja kostnaðarsöm. Þetta eru dæmi um verkefni sem ríkisstjórnin hefur núna lagt áherslu á að verði sinnt. Ég á sæti í nefnd sem fjallar um fjármögnun, m.a. í samstarfi við lífeyrissjóði, inn í atvinnulífið og þá horfa menn m.a. til þessara þátta sem ég hef nefnt, viðhaldsverkefna og síðan verkefna í ferðaþjónustu. Allt tel ég þetta vera til góðs.

Menn hafa nefnt önnur verkefni sem snúa að ungu fólki sem menntamálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir þannig að það er margt smátt sem vonandi kemur til með að gera eitt stórt. Ég fullyrði að þetta mál, atvinnumálin, er það verkefni sem oftast hefur verið á borðum ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, nokkuð sem menn taka mjög alvarlega, að finna leiðir til að tryggja atvinnu í landinu.