138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það ber að hafa margt í huga þegar við horfum til atvinnuuppbyggingar í landinu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur haldið því fram að ég horfi eingöngu til stóriðju í þeim efnum og það er mikill misskilningur. Ég horfi mikið til orkufreks iðnaðar og nýtingar annarra náttúruauðlinda sem við eigum til uppbyggingar í atvinnulífi okkar. Það eru allir sammála um að við eigum þær auðlindir og það eru þær sem við þurfum að umgangast af skynsemi en fyrst og fremst með nýtingarmöguleikana í huga þó að við þurfum auðvitað að hafa verndarþáttinn gagnvart náttúrunni alltaf í forgrunni.

Hann nefnir eflingu í ferðaþjónustu. Það má segja að það fari mjög vel saman, aukningin í ferðaþjónustu og þau tækifæri sem hafa skapast þar vegna orkufreks iðnaðar, t.d. vegna virkjana, eins og Bláa lónið og virkjun fyrir austan. Það er mikilvægt að horfa til fjölbreytni þegar við byggjum upp íslenskt samfélag í framtíðinni, fjölbreytni í atvinnutækifærum og í atvinnulífi. En það verður að vera ákveðin kjölfesta á hverjum stað og það hefur sjávarútvegur gjarnan verið í gegnum tíðina í hinum dreifðu byggðum. Þeim tækifærum þarf að fjölga vegna þess að með aukinni tækni og hagræðingu í sjávarútvegi hefur fækkað mjög störfum á þeim vettvangi. Á Austurlandi vinna t.d. 800 manns hjá Alcoa. Það er algjör kjölfesta á því svæði. Það er fyrir utan afleidd störf sem þar eru fjölmörg. Ég veit ekki hvort á að margfalda þetta með tveimur eða jafnvel hærri tölu.

Hv. þingmaður nefnir það hér að við eigum að horfa til starfa í opinbera geiranum, horfa til þess fólks sem byggir upp nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og menntakerfið okkar og sinnir því af kostgæfni. Það er hárrétt. Hitt snýst allt um að útvega fjármagn til að geta staðið undir þeirri velferðarþjónustu sem við viljum byggja hér upp vegna þess að þetta fólk þarf einhvers staðar að fá launin sín (Forseti hringir.) og hið opinbera sem þarf að standa undir því þarf að fá sínar tekjur. Það gerist með eflingu atvinnulífs, (Forseti hringir.) sjálfstæðra fyrirtækja úti um allt land.