138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[16:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem hér hefur verið vakin um þátt stóriðjunnar. Það er of langt mál að fara nákvæmlega ofan í arðsemisútreikninga og annað slíkt en hitt er auðvitað staðreynd að það má vel halda því fram með rökum að það hafi verið á óheppilegum tíma sem Kárahnjúkaverkefnið fyrir austan fór af stað miðað við hagsveiflu. Það eru veigamikil rök sem þar hníga að. Hitt stendur eftir að álverksmiðjan og Kárahnjúkastíflan stendur eftir og skapar auð, eitt af því sem stóð af sér allt þetta hrun og skapar störf.

Við Íslendingar erum í þeirri stöðu núna að við eigum að grípa þau færi sem gefast, bæði í hinu smáa og hinu stóra, af því að við höfum fengið fregnir um að fólk er að streyma frá landinu vegna þess að það er atvinnuleysi og fólk sér ekki fram á að sjá sjálfu sér farborða hér á landi. Þess vegna eigum við t.d. að ganga fastar fram hvað varðar framkvæmdirnar í Helguvík og ég treysti því að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé þeirrar skoðunar að það eigi að klára það verkefni, ég trúi ekki öðru, og styðji ríkisstjórnina í því. Ég vil líka taka fram að til þess að við getum borgað fyrir heilsugæsluna, löggæsluna, allt þetta sem við viljum svo gjarnan geta veitt þegnum þessa lands, opinbera þjónustu, verður að vera þar að baki öflug verðmætamyndun vegna þess að við leysum t.d. ekki atvinnuleysisvandann með því að ríkið ráði til sín fleira og fleira fólk. Hvers vegna ekki, herra forseti? Það er vegna þess að til að borga laun ríkisstarfsmannanna þurfum við framleiðslu í þjóðfélaginu til að geta skattlagt til að geta notað til þess að borga launin í heilsugæslunni, löggæslunni, kennslunni og öllum þessum mikilvægu og ómissandi þáttum í okkar samfélagi. (Forseti hringir.) En þar verður að vera framleiðsla, öðruvísi er það ekki hægt.