138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[16:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi alls staðar að hafa sína putta og jafnvel þótt hinn frjálsi markaður hafi ekki beinlínis sannað sig á undanförnum árum nema síður sé, (Gripið fram í.) og ég held að menn eigi að gæta svolítillar hógværðar í málflutningi þegar þeir eru að hefja hann til vegs og virðingar. Ég er einfaldlega að vara við því að dregnar séu þessar línur á milli opinbers reksturs og fyrirtækja á markaði. Hér ekki langt frá er stór skóli, hann er í opinberum rekstri, hann skapar verðmæti. Hérna ekki ýkja langt frá er sjoppa þar sem menn geta farið og keypt sér samlokur, gos og pulsur. Þetta er hluti af þjónustusamfélaginu og verðmætaskapandi líka. En hvar á að draga þessar línur á milli þess sem skapar verðmætin annars vegar og hins sem gerir það ekki? Þetta eru ekki rök sem halda og ég held að við eigum að reyna að koma okkur upp úr þessum farvegi. Málið er að reyna að finna lausnir sem byggja á margbreytileika og hæfa okkar samfélagi sem best og ég tel að ríkisstjórnin sé að horfa til slíkra þátta. Ég ítreka það sem ég sagði fyrr í dag og vék að áðan að það er mjög mikilvægt að reyna að komast hjá niðurskurði í almannaþjónustunni. Ég horfi til umönnunarstarfanna, ég horfi til menntastarfanna vegna þess að það er atvinnuleysi sem getur reynst þjóðfélögum dýrt ef fólki í þessum geirum er vísað út á gaddinn og við eigum að reyna að forðast það eftir því sem við frekast getum.