138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Að hluta til snýr tillaga til þingsályktunar um skipan rannsóknarnefndar á aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak að spurningunni um verklag hér á Alþingi og fyrirkomulag mála, þ.e. hvort rétt sé og skynsamlegt að við höfum hér starfandi fastanefnd sem sé einhvers konar rannsóknarnefnd sem geti, að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu, tekið upp mál og rannsakað þau fyrir hönd þingsins. Ég hef skilið það svo að slík vinna standi nú yfir og verið sé að leggja drög að slíku sem síðan muni koma hér til umræðu í þingsal. Verði ákveðið að breyta þingsköpum á þann veg að hægt sé að stofna slíka nefnd munu verða ýmsar breytingar hér hvað varðar einmitt eftirlitsmöguleika þingsins. Það er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að ræða það.

Ég hefði kosið, herra forseti, að við hefðum klárað þá vinnu fyrst, þ.e. búið til það form og komið upp því kerfi sem hyggjumst þá hafa um rannsóknarnefndir og rannsóknarskyldu og -getu Alþingis áður en við förum að búa til á hlaupunum nefnd eins og þá sem hér er lagt upp með, án þess að við séum búin að finna því stað eða stoð í þingsköpum og að grípa einhver einstök mál eins og hér er gert til að setja af stað í rannsókn, mál sem er þannig vaxið að sú ákvörðun sem hér um ræðir var þekkt þegar kom til kosninga 2003 og svo aftur 2007 og aftur 2009 þannig að íslenska þjóðin hefur fengið mörg tækifæri til þess að bæði ræða þessi mál og kjósa um þau. Þó að það sé þekkt að menn kjósi ekki í alþingiskosningum um einstök mál er þetta eitt af þeim málum sem mynda afstöðu kjósenda eða ættu að hafa áhrif á afstöðu kjósenda.

Hvað varðar málið sjálft sem hér er um að ræða, þ.e. tildrög þess að tekin var ákvörðun, eins og það er orðað hér, um stuðning Íslands við innrásina í Írak, er það alveg ljóst, tel ég, að öll atriði þess máls hafa komið fram, hvernig sú ákvörðun var tekin, hverjir tóku hana. Þeir sem tóku ákvörðunina hafa lýst því, bæði í ræðu og riti, hvers vegna þeir tóku ákvörðunina þannig að í sjálfu sér er svolítið sérkennileg sú rannsókn sem um er að ræða — sem væntanlega ætti að snúa að því hverjir tóku ákvörðunina og hvers vegna — þegar það liggur allt saman ljóst fyrir. Það er enginn vafi um það hverjir það voru, hvaða ráðherra hér um ræðir og eins og ég segi, þeir hafa gert mjög skýra grein fyrir því hvers vegna þeir tóku ákvörðunina, bæði hér í þingsal og annars staðar.

Þá koma upp spurningar: Var rétt að verki staðið? Tóku þessir ráðherrar, í þessu máli utanríkisráðherra, ákvörðunina með réttum hætti? Þá er rétt að vísa til þess að lögspekingar hafa velt þessu fyrir sér og sá sem má teljast til þeirra allra hæfustu til þess að meta svona mál, prófessor Eiríkur Tómasson, var fenginn til að leggja mat á stjórnsýsluþátt þessa máls, þ.e. hvort ákvörðunin hefði verið rétt tekin. Niðurstaðan í því er alveg skýr, Eiríkur Tómasson kemst að þeirri niðurstöðu að farið hafi verið eftir bæði stjórnarskrá og þingsköpum. Það skiptir miklu máli og er kannski eitt af því sem rannsaka á en í það minnsta liggur fyrir álit þessa lögfræðiprófessors og ég hef ekki séð álit frá neinum málsmetandi lögmönnum sem hafa sýnt fram á það með lagarökum að þessi ákvörðun hafi verið tekin með röngum hætti.

Enda segir svo í því áliti sem Eiríkur Tómasson skrifaði um þetta mál, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem að framan greinir var það í fullu samræmi við íslensk lög og stjórnskipun að forsætisráðherra og utanríkisráðherra tækju umrædda ákvörðun í sameiningu. Ákvörðunin var ekki þess eðlis að samþykki Alþingis þyrfti til að koma þar sem ekki var um að ræða ákvörðun sem fól í sér frekari kvaðir á íslensku landi og lofthelgi en leiðir af varnarsamningnum milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951.“

Það er ekki nóg að segja að mönnum bara finnist þetta hafa verið ólöglegt eða bara kalla það upp. Þeir sem það gera verða að rökstyðja mál sitt betur en gert hefur verið í þessari umræðu í það minnsta eins og ég hef fylgst með henni. Þessi rök og álit lagaprófessorsins hafa ekki verið hrakin hér, í það minnsta ekki með lögum, með tilvísun í lagagreinar.

Síðan er það auðvitað önnur spurning, enn önnur: Var það skynsamleg ákvörðun hjá íslenskum stjórnvöldum að lýsa yfir þessum stuðningi, var það skynsamlegt að leyfa not af íslenskri lofthelgi? Var það skynsamlegt að lýsa því yfir að við mundum taka þátt í því að reyna að endurreisa Írak? Um það geta menn auðvitað deilt alveg endalaust. En ákvörðunin var tekin og hún var tekin með þessum hætti.

Síðan hafa verið á alþjóðavettvangi heilmiklar deilur um lögmæti þessarar ákvörðunar og sýnist sitt hverjum í því. Bæði hafa verið færð rök með því að þetta hafi verið lögleg ákvörðun og rök á móti. Ég ætla mér ekki að gerast einhver dómari í því, menn hafa rætt þetta á alþjóðavettvangi og mig brestur vit og kunnáttu til að taka endanlega afstöðu í því máli og færa sérstök rök fyrir því. Það sem skiptir mig mestu máli sem alþingismann á Íslandi núna er þessi spurning: Er þetta mál þannig vaxið að við þurfum að læra af því hvað varðar samskipti ríkisstjórnar og þings? Í það minnsta voru ekki brotin lög eftir því sem Eiríkur Tómasson, prófessor í lögum, hefur bent á, og engin breyting hefur orðið á því að það eru ráðherrarnir sem bera þessa ábyrgð. Þeir hafa til þess vald samkvæmt stjórnarskrá að taka þessar ákvarðanir. Það leiðir bara af verkaskiptingunni á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins.

Svo er auðvitað hitt, þegar menn velta fyrir sér lögmætinu á alþjóðavettvangi, að mér hefur alltaf þótt svolítið sérkennilegt hvað margir hv. þingmenn hafa skautað léttilega fram hjá umræðunni um það þegar það var ákveðið að ráðast inn í Kósóvó á sínum tíma þegar Atlantshafsbandalagið greip þar til aðgerða. Þá lá fyrir að Rússland mundi beita neitunarvaldi í öryyggisráðinu gegn slíkum aðgerðum, mjög skýr staða sem þar var uppi og miklu skýrari en varð síðar þegar um var að ræða ákvarðanir sem teknar voru í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna varðandi Írak en alveg skýr niðurstaða hvað varðaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á þeim tíma þegar Kósóvó-ákvörðunin var tekin. Samt sem áður var það ákvörðun NATO, og þar á meðal okkar Íslendinga, að grípa til aðgerða í Kósóvó til að skakka þar leikinn og koma í veg fyrir alveg hræðilega hluti þar. Það er dálítið erfitt, svo að ég segi nú ekki meira, að vera þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að grípa til neinna aðgerða varðandi Írak nema menn hafi algjörlega og fullkomlega uppfyllt allan alþjóðlegan lagabókstaf en skauta síðan léttilega fram hjá sömu spurningum þegar kemur að þeim aðgerðum sem grípa varð til af hálfu Atlantshafsbandalagsins í Kósóvó. Það er áhugavert að heyra nákvæmlega, t.d. frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, sem studdu þá ákvörðun að grípa til aðgerða í Kósóvó, hvernig þeir réttlæta þessa mismunandi nálgun hvað varðar alþjóðleg lög og alþjóðlegan rétt.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þessi þingsályktunartillaga sé ótímabær, það sé eðlilegra að við göngum fyrst frá því hér í þingsölum hvort við viljum setja upp þetta fyrirkomulag, þ.e. rannsóknarnefndarfyrirkomulag hér í þinginu. Ef það er niðurstaðan þá sé þannig búið að ganga frá málum að við séum búin að binda það í lög og í þingsköp og þá geta menn byrjað að senda ýmis mál til slíkrar nefndar og sjá má fyrir sér ýmis önnur mál sem áhugavert verður að fá niðurstöðu í og rannsókn um og ber þar nú einna hæst Icesave-málið — ég er nokkuð viss um að slík rannsóknarnefnd, verði hún sett og henni fundinn staður hér í þingsköpum, mun fá það sent til að rannsaka framgöngu íslenskra ráðamanna í því. Það tel ég deginum ljósara.

Þetta mál mun væntanlega ganga til nefndar eins og þingsköp gera ráð fyrir og þá munum við sjá hver afdrif þessa máls verða þar.