138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil undir lok þessarar umræðu fá að þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni fyrir nokkuð málefnalega umræðu og fagna því að við séum að ræða þetta mál hér í dag. Þetta er mikilvægt mál eins og hefur komið fram í umræðunni og það er þannig eins og ég sagði í andsvari mínu við hv. þm. Illuga Gunnarsson, að um allan heim eru menn að átta sig á því að þátttaka í Íraksstríðinu og allur aðdragandi að því stríði voru mikil mistök og menn eru að gera þann þátt upp í sinni sögu. Ég tel þess vegna eðlilegt að við Íslendingar gerum það líka, þetta er partur af þeirri hreingerningu og því uppgjöri sem þarf að fara fram í samfélagi okkar, ekki síst til að við getum lært af sögunni og lært af mistökunum til að slíkir hlutir endurtaki sig ekki.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa verið mjög uppteknir af því að þetta sé allt í góðu lagi, þessi rannsókn sé algjörlega óþörf vegna þess að allt sé uppi á borðum. Sú sem hér stendur og hv. þm. Ögmundur Jónasson hafa bæði fært rök fyrir því að svo sé ekki og þess vegna held ég að við ættum öll að sameinast um það, hvar í flokki sem við stöndum, að hrinda þessari rannsókn af stað til að fá það upp á borðið í eitt skipti fyrir öll hvort málið sé vaxið með þeim hætti sem hv. þm. Illugi Gunnarsson og hv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, halda fram, vegna þess að ég held að svo sé ekki.

Vegna þess sem hv. þm. Illugi Gunnarsson spurði mig að varðandi álit Eiríks Tómassonar lögmanns og hvaða skoðun ég hefði á því, er skoðun mín sú að það sé bara eitt lögfræðiálit sem hefur ekkert meira gildi en hvert annað lögfræðiálit sem pantað er í þessu máli sem og mörgum öðrum. Ég held að við þurfum að hafa úrskurð Hæstaréttar í höndunum, fyrst héraðsdóms og síðan Hæstaréttar um það hvort rétt hafi verið að málum staðið til þess að menn geti fullyrt að hlutirnir séu eins hreinir og hvítir og menn halda fram.

Mig langaði í lokin, frú forseti, að nefna það vegna orða minna um fjölmiðlaumfjöllun í fyrri ræðu minni, þar sem ég gagnrýndi nokkuð Morgunblaðið fyrir umfjöllun eða skort á umfjöllun um málið, að mér hefur verið bent á það að 2. febrúar, eftir að málið kom fram, hafi komið lítil klausa í Morgunblaðinu , prentmiðlinum, um að málið hefði verið lagt fram. Það var hins vegar ekki fyrr en í Reykjavíkurbréfi viku síðar sem Morgunblaðið sá ástæðu til að segja sína skoðun á málinu. Það var hins vegar engin úttekt eða fréttaskýring af hálfu hins prentaða Morgunblaðs . En svo öllu sé til haga haldið var fjallað um málið á vefmiðlinum mbl.is en það er eins og allir vita nokkur munur á því hvaða hópar í samfélaginu lesa prentmiðla annars vegar og netmiðla hins vegar.

Ég vildi segja þetta þannig að ég ætti ekki von á skömmum ofan úr Hádegismóum í blaðinu á morgun fyrir að hafa farið hér með rangt mál og því vildi ég leiðrétta þetta, að það kom lítil klausa um að þessi tvö mál hefðu verið lögð fram daginn eftir í Morgunblaðinu 2. febrúar. Þá var að vísu, frú forseti, þegar Reykjavíkurbréfið kom út 7. febrúar, reyndar búið að fjalla mjög ítarlega um málið í sjónvarpsfréttum beggja sjónvarpsstöðva, í fréttatímum útvarps, í morgunútvarpi Rásar 2 og víðar. Og svo ég endurtaki það sem ég sagði í fyrri ræðu minni finnst mér að miðill sem kallar sig blað allra landsmanna, hefði átt að gera þessu máli meiri og betri skil en gert var, ef miðillinn vill láta taka sig alvarlega sem blað allra landsmanna. Ég vildi segja þetta, frú forseti, þannig að ekki væri hægt að saka mig um að fara með rangt mál úr ræðustóli Alþingis.