138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er þannig í lögfræði, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson veit, að það er hægt að komast að mismunandi niðurstöðum allt eftir því hvernig á málið er litið. Þess vegna segi ég að það álit sem liggur hér fyrir og hv. þingmaður hangir í, ef svo má að orði komast, þ.e. álit Eiríks Tómassonar — ef það álit er staðfest af héraðsdómi og Hæstarétti skal ég fallast að einhverju leyti á að þetta álit sé rétt. Meðan svo er ekki gef ég ekki sérstaklega mikið fyrir þetta álit. Ég held að við þyrftum að fara yfir þetta mál fyrir opnum tjöldum, fá fleiri lögfræðinga og aðila til þess að fara yfir það til þess að komast að því hvort hér hafi verið rétt að málum staðið miðað við stjórnskipan Íslands.

Ég verð síðan að endurtaka það sem ég sagði áðan og vísa því á bug sem hv. þingmaður sagði um að allt sé uppi á borðum í þessu máli. Það er ekki allt uppi á borðum í þessu máli. Það eina sem er uppi á borðum er að tveir menn hafa viðurkennt að hafa tekið þessa ákvörðun einir og óstuddir, þ.e. Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson. Þeir hafa hins vegar aldrei nokkurn tíma viljað skýra frá því hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan, hvaða mat hafi verið lagt á þær upplýsingar af hálfu t.d. sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat. Því hefur ekki verið svarað, það er það sem ég bendi á hér og það er það sem ég vil fá fram með því að setja á laggirnar þessa rannsóknarnefnd. Öll gögn upp á borðið, förum í gegnum þetta frá A til Ö og þá hlýtur sannleikurinn að koma í ljós.