138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

framkvæmd fjárlaga.

[15:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra blómlegt svar þó að illt verði að pikka mikið út úr því. Engu að síður er þessi staða grafalvarleg ef við horfum fram á minni veltu í hagkerfinu í bland við það að einhver áform um skattlagningu ganga ekki eftir. Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar við höfum í huga hvert viðfangið er fyrir fjárlagagerð ársins 2011. Við horfum upp á að þurfa kannski að skera niður í ríkisrekstrinum upp á 10–15%, 50–60 milljarða kr. eins og sagt hefur verið.

Í lokin langar mig ekki síst að heyra frá hæstv. ráðherra hvar vinna við gerð nýrrar þjóðhagsspár liggur, hvenær við megum vænta þess að fá fram nýja þjóðhagsspá. Þær upplýsingar sem við fengum í tengslum við fjárlagagerðina voru mjög ófullkomnar þar sem lögð voru fram einhvers konar drög að þjóðhagsspánni fyrir árið 2011. Okkur bráðvantar (Forseti hringir.) þessi nýju gögn.