138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

framkvæmd fjárlaga.

[15:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það væri mjög æskilegt að við gætum skotið á fundi sem fyrst, ég kæmi í heimsókn til fjárlaganefndar og færi yfir það hvar vinnan er á vegi stödd. Það er búið að samþykkja verk- og tímaáætlun um fjárlagagerðina og ráðherranefnd um ríkisfjármál hefur afgreitt það fyrir sitt leyti. Hún er tímasett með markmiðum því að ætlunin er að reyna að vera að sjálfsögðu miklu fyrr á ferðinni og nær eðlilegu vinnulagi á þessu ári en var á síðasta ári sem var allt með mjög miklum ólíkindum.

Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt að hafa áhyggjur af stöðunni mánuð frá mánuði en aðalatriðið er þó að við fáum þann viðsnúning í hagkerfinu sem við þurfum að fá á þessu ári, að hann gangi okkur ekki úr greipum og að á síðari hluta ársins fari að birta til. Þá fyrst fer að taka harkalega í ef það bregst okkur.

Varðandi þjóðhagsspána vonumst við til að Hagstofan skili henni í mars. Það hefur ekki flýtt fyrir og ekki auðveldað leikinn að þessi flutningur varð á verkefnum innan Stjórnarráðsins, þjóðhagsspáin fór frá fjármálaráðuneyti og hluti þeirra starfa fluttist í (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptaráðuneytið og hluti til Hagstofunnar, en ætlunin er að það komi þjóðhagsspá í marsmánuði eða í síðasta lagi í byrjun apríl. Þá erum við betur á vegi stödd með þann þátt málsins.