138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

samstarf við bandarísk stjórnvöld vegna Icesave.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, ég þakka honum fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg nauðsynlegt að losa um það tak sem Bretar og Hollendingar virðast hafa að því er varðar endurskoðun á áætlun okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að því höfum við auðvitað unnið. Ég ræddi þetta síðast ítrekað við Barroso á fundi mínum með honum í Brussel, að það væri ólíðandi og óþolandi að það væri verið að tengja endurskoðunaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við t.d. Icesave-málið. Þetta hefur víðar verið tekið upp. Á vettvangi utanríkisráðuneytisins hefur verið rætt við alla sendiherra hér á landi um stöðuna að því er varðar endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með það að markmiði að þeir styðji okkur í því að ekki sé verið að tengja þetta saman sem ég tek fram að er alveg ólíðandi.

Af því að sérstaklega er spurt um Bandaríkin hef ég ekki talað við — nefndi hv. þingmaður ekki utanríkisráðherra Bandaríkjanna? Ég hef ekki gert það. En á mörgum vígstöðvum, eins og ég hef komið inn á, hefur verið unnið að því af alefli að aftengja þetta og ganga eftir því að menn séu ekki að nýta sér aðild sína að Evrópusambandinu eða annars staðar til að fá stuðning við það að Bretar og Hollendingar komi í veg fyrir endurskoðunina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við höfum verið í sambandi við forsvarsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að það sé óþolandi. Mér finnst þeir taka undir að þetta séu óskyld málefni sem eigi ekki að tengja saman og það gerði t.d. forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í samtölum mínum við hann, hann taldi ekki eðlilegt að tengja þetta saman.