138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

þjónustusamningur við RÚV.

[15:24]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum vikum hefur skapast mikil umræða í samfélaginu um málefni Ríkisútvarpsins í tengslum við boðaðan niðurskurð stofnunarinnar á innlendri dagskrárgerð, fréttaþjónustu og þjónustu svæðisútvarpsstöðvanna.

Ríkisútvarpið þarf að spara eins og aðrar stofnanir í samfélaginu en það er ekki sama hvernig það er gert. Það vekur sérstaka athygli hve hart þessi niðurskurður kemur niður á tveimur meginstoðum RÚV, innlendri dagskrá og fréttaþjónustu, einmitt á þessum tímum. Það er að mínu mati ámælisvert að segja upp níu fréttamönnum, sjötta hverjum fréttamanni, þar á meðal þrautreyndum fréttamönnum og fagmönnum, á þessum krefjandi tímum þegar krafa þjóðarinnar og þörf fyrir vandaða, faglega fréttaþjónustu er meiri en nokkru sinni fyrr. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Á sama tíma var einum starfsmanni sagt upp á auglýsingadeild, eins og fram kom í þingræðu hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar í síðustu viku.

Virðulegi forseti. Í þjónustusamningi Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins er kveðið á um það að Ríkisútvarpið skyldi verja 200 millj. kr. árið 2009 í kaup á innlendu dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Það er ljóst að því marki var ekki náð. Kvikmyndagerðarmenn halda því fram að einungis 108 millj. kr., þ.e. ríflega helmingi þessarar fjárhæðar, hafi verið varið í kaup á innlendu dagskrárefni í fyrra en forsvarsmenn RÚV halda því fram að upphæðin hafi verið 175 millj. kr. og telja þá með talsetningu á erlendu barnaefni.

Nú langar mig að spyrja menntamálaráðherra tveggja spurninga, í fyrsta lagi: Hver er skilningur hennar á þessum lið í þjónustusamningnum, þ.e. getur talsetning á erlendu barnaefni talist til nýsköpunar í innlendri dagskrárgerð? Í öðru lagi: Telur hún að RÚV hafi brotið þjónustusamninginn á síðasta ári hvað þetta varðar?