138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

þjónustusamningur við RÚV.

[15:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessi svör. Ég vek athygli á því að breska ríkisútvarpið, BBC, ver um 35% af tekjum sínum til kaupa á innlendu dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Sambærilegt hlutfall hjá íslenska Ríkisútvarpinu er innan við 4%, jafnvel þó að við gefum okkur að skilgreining Ríkisútvarpsins sjálfs á nýsköpun í dagskrárgerð sé notuð.

Í ljósi þeirra frétta sem hafa borist okkur um niðurskurðinn á Ríkisútvarpinu og þeirrar forgangsröðunar sem birtist í því vali þess að skera harkalegar niður hjá fréttaþjónustunni og í kaupum á innlendu dagskrárefni langar mig að forvitnast um afstöðu menntamálaráðherra almennt til þess niðurskurðar sem stjórnendur RÚV hafa boðað og hvort hún sé sátt við þá forgangsröðun sem þar birtist.